Bæjarstjórn mótmælir niðurskurði á samgönguáætlun

Ráðhús Akureyrarbæjar. Mynd: Ragnar Hólm.
Ráðhús Akureyrarbæjar. Mynd: Ragnar Hólm.

Bæjarstjórn Akureyrar skorar á Alþingi, ráðherra og ríkisstjórn að endurskoða ákvörðun um niðurskurð á samgönguáætlun og tryggja þegar það fjármagn sem gert var ráð fyrir, þannig að uppbygging samgöngumannvirkja um land allt komi til framkvæmda á árinu samkvæmt áætlun.

Lögð var fram bókun þessa efnis á fundi bæjarstjórnar þriðjudaginn 7. mars sl. og samþykkt samhljóða. 

Bókunin er þessi:

Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar telur það algjörlega óásættanlegt að nýsamþykkt samgönguáætlun hafi ekki verið fjármögnuð að fullu við gerð fjárlaga 2017. Áætlunin er vanfjármögnuð um 10 milljarða króna á árinu 2017 og því hefur samgönguráðherra lagt til mikinn niðurskurð á þeim verkefnum sem til stóð að framkvæma á árinu. 

Þriðji áfangi Dettifossvegar, er meðal þeirra verkefna sem samgönguráðherra leggur til að skorið verði niður og ljóst er að vegurinn mun því ekki klárast á árinu 2018 líkt og stefnt var að. Fjármagn í flughlaðið á Akureyri mætir niðurskurði og er ekki á áætlun. 

Þessar framkvæmdir og fleiri sem fyrirhugað er að falla frá eru mikilvæg hagsmunamál fyrir byggðarlög í landinu og eru liður í því að styrkja innviði landsbyggðarinnar og stuðla að möguleikanum fyrir fjölbreytta uppbyggingu um allt land. 

Áframhaldandi fjársvelti til samgöngumála getur leitt til hruns í samgöngukerfinu sem mun koma hart niður á umferðaröryggi, ferðaþjónustu, öðrum atvinnugreinum og íbúum landsins.

Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar skorar á Alþingi, ráðherra og ríkisstjórn að endurskoða þessa ákvörðun og tryggja þegar það fjármagn sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun, þannig að uppbygging þessara samgöngumannvirkja sem og annarra um land allt komi til framkvæmda á árinu samkvæmt áætlun.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan