Bæjarfulltrúar funduðu með þingmönnum

Frá fundi sveitarstjórnarfólks með þingmönnum kjördæmisins. Mynd: Hulda Sif Hermannsdóttir.
Frá fundi sveitarstjórnarfólks með þingmönnum kjördæmisins. Mynd: Hulda Sif Hermannsdóttir.

Bæjarfulltrúar á Akureyri, og annað sveitarstjórnarfólk úr Eyjafirði, sátu í gær fund með þingmönnum kjördæmisins.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri fór yfir nokkur áherslumál sveitarfélagsins gagnvart ríkinu og er um að ræða mál sem bæjarstjórn hefur ályktað um s.s. raforkumál og raforkuflutninga en bæjarstjórn Akureyrar hefur lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu raforkumála á svæðinu. Sömu áhyggjur komu fram í máli fleira sveitarstjórnarfólks í firðinum.

Einnig var komið inn á málefni göngudeildar SÁÁ á Akureyri en bæjarráð hefur lagt mikla áherslu á að framhald verði á göngudeildarþjónustu fyrir ávana- og fíkniefnasjúklinga á Akureyri sem tryggir þjónustu við íbúa á Norðurlandi.

Rætt var um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga en bæjarstjórn Akureyrar telur afar mikilvægt að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði tekin til gagngerrar endurskoðunar. Heildartekjur hins opinbera hafa vaxið verulega á liðnum árum og þá sérstaklega með auknum tekjum af ferðaþjónustu og fær ríkið stærsta hluta þeirrar tekjuaukningar. Á sama tíma standa sveitarfélög frammi fyrir auknum kostnaði m.a. við innviðauppbyggingu vegna mikillar fjölgunar ferðamanna.

Akureyrarflugvöllur kom til umræðu en bæjarráð hefur skorað á ISAVIA og stjórnvöld að ráðast þegar í mótun framtíðarsýnar flugvallarins. Einnig var staðsetning Reykjavíkurflugvallar rædd en bæjarstjórn Akureyrar hefur lagt áherslu á að flugvöllurinn verði áfram miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs fyrir landið allt, þar til jafngóð eða betri lausn finnst.

Að síðustu voru daggjöld við Öldrunarheimili Akureyrar rædd en bæjarstjórnin hefur skorað á stjórnvöld, fjármálaráðherra og ekki síst þingmenn að beita sér fyrir breytingum á núgildandi lögum og reglum er snúa að daggjöldum til hjúkrunarheimila. Fyrir liggur að ríkinu ber að annast þessa þjónustu og daggjöld eiga að endurspegla raunverulegan rekstrarkostnað heimilanna sem byggir á þjónustustöðlum sem settir eru af ríkinu. Akureyrarbær hefur á sl. fimm árum greitt með rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar 843 milljónir króna.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan