Bæjarbragður í upphafi fullveldis

Lára Ágústa Ólafsdóttir héraðsskjalavörður, Ásthildur og Berglind Mari Valdemarsdóttir verkefnastjór…
Lára Ágústa Ólafsdóttir héraðsskjalavörður, Ásthildur og Berglind Mari Valdemarsdóttir verkefnastjóri á Amtsbókasafninu.

Ávarp við opnun sýningarinnar "Bæjarbragur í upphafi fullveldis" á Amtsbókasafninu á Akureyri 1. desember 2018. Að sýningunni standa Amtsbókasafnið, Héraðsskjalasafnið og Minjasafnið á Akureyri.

Ágætu gestir.

Við erum komin í tímavél. Það er desember 1918 og við erum stödd á Akureyri. Ég horfi yfir bæinn líkt og hið aldna þjóðarskáld Matthías Jochumsson sem búsettur er á Sigurhæðum og ætla að lýsa aðeins bæjarbragnum og hvað hefur drifið á daga bæjarbúa þetta árið.

Í bænum búa ríflega 2.000 manns og þetta eru m.a. fjórir bókbindarar, einn amboðasmiður, sjö bændur, fjórar búðarstúlkur, tveir bóksalar, ein forstöðukona, tveir gagnfræðingar, tvær heimasætur, einn húsfaðir, einn nuddlæknir, fimm símameyjar,19 vetrarstúlkur og 101 vinnukona.

Líkt og í dag þá er Akureyri menningarbær árið 1918. Hér höfum við leikfélag, reglulegar kvikmyndasýningar og tvær bifreiðar aka um göturnar. Það er líka hreint með ólíkindum hversu margar sérverslanir eru reknar og mjög gjarnan eru þær kenndar við eigendur sína, s.s. Verslun Jósefínu Hansen í Brekkugötu 1, Verslun Karls Guðnasonar í Strandgötu 11, Verslun Lárusar Thorarensen í Strandgötu 19, Verslun Magnúsar H. Lyngdal í Hafnarstræti 97 og Verslun Pálínu Þorkelsdóttur í Hafnarstræti 41.

Kaupfélag Eyfirðinga er með fjölbreyttan og kröftugan rekstur og er bæjarfélaginu afar mikilvægt. Það er til húsa í Hafnarstræti 90 og Kjötbúð Kaupfélags Eyfirðinga er í Kaupvangsstræti 6. Iðnaður er einnig umtalsverður og hér starfa til að mynda þrír söðlasmiðir, þeir Halldór Halldórsson, Ingimar Jónsson og Jón Kristjánsson. Það sama er að segja um gullsmíði en hér starfa þrír menn sem sérhæfa sig í þessari iðn, þeir Björn Jakobsson, Stefán Þórarinsson og Þórður Thorarensen. Ætíð þarf að huga vel að skóbúnaði og því er gott að hér starfa tveir skósmiðir, þeir Sigurður Jóhannesson og Jónatan Jakobsson. Þar sem það er gangur lífsins að fólk fæðist og það deyr þá er nauðsynlegt að í bænum sé starfandi líkkistuverkstæði og hér eru einmitt tvö slík. Annað þeirra í Aðalstræti 54 og hitt í Brekkugötu 1. Þar sem ég er áhugamanneskju um vel sniðinn klæðnað þá skiptir það mig miklu máli að á Akureyri er starfandi klæðskeri í Brekkugötu 1 og sæki ég gjarnan þjónustu þangað.

Við Íslendingar sýnum veðrinu einlægan áhuga og það verður að segjast að þetta ár 1918 hefur verið erfitt veðurfarslega séð. Það gekk í garð með norðan hríðum og miklu frosti sem fyllti fjörðinn af ís sem losnaði ekki fyrr en í apríllok. Sumarið bauð ekki upp á margar sólskinsstundir, segja má að aðeins hafi verið hægt að fá eilítinn lit í andlitið mánaðarmótin júlí-ágúst. Veðrið hefur ekki verið bænum auðvelt – jörð var kalin og sumsstaðar urðu hey hreinlega úti sem er afar bagalegt. Katla byrjaði að gjósa í október og var það allnokkurt gos en við hér fyrir norðan höfðum svo sem ekki miklar fregnir af því.

Seinnihluta ársins bárust til landsins veikindi sem hafa verið kölluð Spænska veikin og er hún afar skæð en við hér á Norðurlandi höfum guði sé lof verið afar heppin, þar sem hún hefur ekki borist norður enda var sett á samgöngubann.

Við Íslendingar höldum áfram baráttu okkar fyrir fullveldi og þar sem ég er mikil áhugamanneskja um sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga fylgdist ég grannt með niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór 19. október, þar sem kosið var um frumvarp til nýrra sambandslaga en með því er Ísland viðurkennt fullvalda ríki í sambandi við Danmörku með einn og sama konung. Lögin voru samþykkt. Því miður voru mun færri konur en karlar sem nýttu atkvæðisréttin sinn og það er leitt að heyra. Mér finnst líka leitt að heyra að kosningaþátttakan var hvað minnst hér á Akureyri. En það er kannski ekkert skrýtið að akkúrat þessi mál hafi ekki verið okkur efst í huga þegar við glímum við erfið lífsskilyrði m.a. vegna stríðsins á meginlandinu. En við fögnuðum þó þessum áfanga með því að flagga um allan bæ og mér skilst að bæjarfógeti hafi sent heillaóskaskeyti til stjórnarráðsins.

Ég stíg nú út úr tímavélinni og er komin til ársins 2018 þar sem við fögnuð 100 ára fullveldisafmæli m.a. með þessari sýningu sem sett er upp í samvinnu Amtsbókasafnsins, Héraðsskjalasafnsins og Minjasafnsins með stuðningi Fullveldissjóðs. Til hamingju með sýninguna og innilega til hamingju með daginn.