Bókin um fjallkonuna og ávarp fjallkonunnar Diljár Maríu Jóhannsdóttur

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, Diljá María Jóhannsdóttir fjallkona Akureyrar, og Á…
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, Diljá María Jóhannsdóttir fjallkona Akureyrar, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri. Mynd: Ragnar Hólm.

Fyrir hátíðarhöldin 17. júní og í tilefni af 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands gaf forsætisráðuneytið út bókina "Fjallkonan. Þú ert móðir vor kær" sem er gjöf til landsmanna. Fjallkonan er þjóðartákn og í bókinni er kafað ofan í sögu hennar og birt ávörp fjallkonunnar allt frá árinu 1947 ásamt úrvali þjóðhátíðarljóða. Í bókinni eru þýðingar m.a. á ensku og pólsku.

Bókin var gefin gestum og gangandi á hátíðarsvæðinu í Lystigarðinum á þjóðhátíðardaginn og fæst nú endurgjaldslaust í Amtsbókasafninu, Sundlaug Akureyrar, Glerárlaug, Handverkshúsinu í Grímsey og í Hríseyjarbúðinni á meðan birgðir endast.

Hátíðarhöldin í Lystigarðinum og á MA-túninu tókust með miklum ágætum enda var veðrið eins og best verður á kosið.

Fjallkona Akureyrar var að þessu sinni Diljá María Jóhannsdóttir, nýstúdent frá MA. Ávarp hennar var svohljóðandi:

Góðir Íslendingar,

Halldór Laxness sagði í Heimsljósi: „Þegar koma tveir góðviðrismorgnar í röð á Íslandi, þá er einsog allar áhyggjur lífsins hafi kvatt fyrir fullt og alt.“ Þetta átti sannarlega við hér á Akureyri í nýliðinni viku. Eftir að hafa þurft að þola snjókomu í júní tóku við sólríkir dagar sem léttu af okkur öllum áhyggjum lífsins og færðu okkur sól í hjarta.

En við lifum á viðsjárverðum tímum. Á hverjum degi birtast okkur fréttir af stríðshrjáðum svæðum með uppfærðum tölum fallinna og særðra, fólks á flótta frá heimaslóðum. Fjöldinn er slíkur að hann birtist okkur bara sem dauðar tölur á skjánum frekar en feður, mæður, börn, ömmur, afar. Fjölskyldur. Sálir. Einstaklingar með vonir um friðsæla framtíð. Rétt eins og við.

Í ljóði sínu, Til eru fræ, fjallaði Davíð Stefánsson frá Fagraskógi um það sem ekki gat orðið;

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefur vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mæst
og aldrei geta sumir draumar ræst.
Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

Við Íslendingar erum lánsöm þjóð. Fræin okkar geta orðið að blómum og vonin okkar hefur vængi. Og við getum leyft öðrum að njóta þess með okkur svo skipin þeirra nái landi og draumarnir geti ræst. Staða okkar er öfundsverð.

Kæru gestir, við fögnum í dag 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Við búum við þann munað að ráða örlögum okkar sjálf. Í friði. Þó að landið okkar geti boðið upp á allar árstíðir á einni viku þá færir það okkur líka óbeislaða náttúrufegurð, gnótt orku úr iðrum jarðar og eftirsóknarverðar auðlindir úr hafi. Fræin okkar verða að blómum.

Góðir Íslendingar, gleðilega þjóðhátíð!

Smellið á myndirnar að neðan til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra. Myndir: Elísabet Ögn Jóhannsdóttir & Ragnar Hólm Ragnarsson.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan