Aukin ánægja með þjónustu við börn og eldri borgara

Úr Kjarnaskógi. Mynd: María H. Tryggvadóttir
Úr Kjarnaskógi. Mynd: María H. Tryggvadóttir

Níu af hverjum tíu Akureyringum eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á, samkvæmt niðurstöðum nýrrar þjónustukönnunar Gallup. Jákvæður og marktækur munur er á ánægju með þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara á Akureyri frá árinu á undan.

Gallup hefur um nokkurt skeið gert árlega viðhorfskönnun meðal íbúa gagnvart þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og voru 20 stærstu sveitarfélögin mæld að þessu sinni, Akureyrarbær þar á meðal.

Almennt virðast Akureyringar ánægðir með þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Í flestum þjónustuþáttum sem spurt var um er ánægjan jöfn því sem mældist árið á undan. Á þetta til dæmis við um þjónustu grunnskóla, þjónustu við barnafjölskyldur, hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum og leysir úr erindum bæjarbúa.

Samkvæmt könnuninni minnkar ánægja með skipulagsmál, gæði umhverfis í nágrenni heimilis og aðstöðu til íþróttaiðkunar frá árinu á undan. Á hinn bóginn eru töluvert fleiri ánægðir með þjónustu við fatlað fólk en árið á undan og þá eru íbúar marktækt ánægðari með þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara.

Hér má skoða helstu niðurstöður könnunarinnar.

Þeir sem hafa nýtt sér þjónustu leik- og grunnskóla síðustu 12 mánuði voru spurðir sérstaklega um ýmsa þætti sem falla þar undir. Sá hluti sýnir fram á mikla ánægju með þjónustu grunnskóla. 80-90% svarenda sögðust vera frekar, mjög eða að öllu leyti ánægðir með samvinnu grunnskóla og heimilis, upplýsingar frá skólanum, aðlögun kennslu að þörfum barns, líðan barnsins í skólanum, starfið í frístund og göngu- og hjólaleiðir að skólanum. Ríflega 70% svarenda eru ánægðir með mötuneyti grunnskóla og viðbrögð skólans við áreitni eða einelti.

Á sama hátt mælist almenn ánægja með þjónustu leikskóla. 95% svarenda sögðust ánægðir með líðan barnsins í leikskólanum og 80-91% sögðust ánægðir með samvinnu skóla og heimilis, upplýsingar frá leikskólanum, aðlögun kennslu að þörfum barnsins, mötuneyti, viðbrögð leikskólans við áreitni og einelti og göngu- og hjólaleiðir að leikskólanum.

Könnunin var gerð á tímabilinu 26. nóvember 2019 til 8. janúar 2020. 499 íbúar á Akureyri svöruðu könnuninni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan