Ársreikningur 2020: Þungur rekstur í samræmi við áætlun

Akureyri. Ljósmynd: Kristófer Knutsen.
Akureyri. Ljósmynd: Kristófer Knutsen.

Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2020 var lagður fram í bæjarráði í gær. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar var þungur á árinu en gekk í meginatriðum í samræmi við áætlun ársins. Sjóðstreymið var lakara en árið áður en þó nokkru betra en áætlun gerði ráð fyrir.

Samstæða Akureyrarbæjar, þ.e. Aðalsjóður, Fasteignir Akureyrarbæjar, Eignasjóður gatna og Umhverfismiðstöð ásamt fyrirtækjum í eigu bæjarins, s.s. Félagslegar íbúðir, Strætisvagnar Akureyrar, Hafnasamlag Norðurlands, Norðurorka og Öldrunarheimilin, var rekin með 1.612 millj. kr. halla. Rekstur samstæðu Akureyrarbæjar var óviðunandi en rekstrarniðurstaða ársins var í samræmi við fjárhagsáætlun sem gerði ráð fyrir 1.603 millj. kr. neikvæðri niðurstöðu. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt var neikvæð um 27 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 18 millj. kr. rekstrarhalla.

Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi nam veltufé frá rekstri 2.312 millj. kr. sem var 380 millj. kr. hærra en áætlað var. Sambærileg fjárhæð árið áður var 2.974 millj. kr. Handbært fé frá rekstri nam 2.264 millj. kr. Fjárfestingahreyfingar námu samtals nettó 3.926 millj. kr. en fjármögnunarhreyfingar námu samtals nettó 2.493 millj. kr. Afborgun langtímalána nam 841 millj. kr. en ný langtímalán voru 3.391 millj. kr. Hækkun á handbæru fé á árinu nam 831 millj. kr. og var handbært fé samstæðunnar í árslok 2.512 millj. kr. Veltufé frá rekstri árið 2020 í hlutfalli við tekjur nam 8,37% í samstæðunni og 4,40% í A-hluta. Árið áður voru hlutföllin 10,9% í samstæðunni og 7,0% í A-hluta.

 

Heildarlaunagreiðslur án launatengdra gjalda og hækkunar lífeyrisskuldbindinga hjá samstæðunni voru 13.194. millj. kr. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 1.631 sem er fjölgun um 32 stöðugildi frá árinu áður. Laun og launatengd gjöld samstæðunnar í hlutfalli við rekstrartekjur þess voru 63,9%. Annar rekstrarkostnaður var 29,0% af rekstrartekjum. Skatttekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru 876 þús. kr. á hvern íbúa en tekjur voru samtals 1.437 þús. kr. á hvern íbúa. Árið 2019 voru skatttekjurnar 839 þús. kr. á hvern íbúa og heildartekjurnar 1.428 þús. kr. á hvern íbúa.

Niðurstaða rekstrar A-hluta var neikvæð um 1.634 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 1.835 millj. kr.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir sveitarfélagsins í árslok 2020 bókfærðar á 59.403 millj. kr. en þar af voru veltufjármunir 5.708 millj. kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum námu samkvæmt efnahagsreikningi 34.341 millj. kr. en þar af voru skammtímaskuldir 4.639 millj. kr.

Þrátt fyrir slakt ár í rekstri er fjárhagur Akureyrarbæjar traustur og nam skuldaviðmið samstæðunnar í árslok 85% samkvæmt reglum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga en það var 73% árið áður. Skuldaviðmið í A-hluta var 62% í árslok en var 55% árið áður.

Veltufjárhlutfallið var 1,23 í árslok 2020 en var 1,15 árið áður. Bókfært eigið fé nam 25.063 millj. kr. í árslok en var 26.434 millj. kr. í árslok árið áður. Eiginfjárhlutfall var 42% af heildarfjármagni en var 47% árið áður.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður hann til umfjöllunar í bæjarstjórn Akureyrar 20. apríl og 4. maí nk.

Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt lögum um reikningsskil sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða að meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum.

Hér er hægt að skoða ársreikning bæjarins fyrir árið 2020. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan