Andrés önd og nýja stólalyftan

Þrír af upphafsmönnum Andrésar andar leikanna með bæjarstjóranum á Akureyri síðasta vetrardag. Frá v…
Þrír af upphafsmönnum Andrésar andar leikanna með bæjarstjóranum á Akureyri síðasta vetrardag. Frá vinstri: Hermann Sigtryggsson, Ívar Sigmundsson, Gísli K. Lórensson og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri.

Síðasta vetrardag, við upphaf Andrésar andar leikanna, var undirritaður styrktarsamningur Akureyrarbæjar við skíðahátíðina og daginn eftir, sumardaginn fyrsta, var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri stólalyftu í Hlíðarfjalli sem verður opnuð í desember.

Akureyrarbær hefur veitt Andrésar andar leikunum stuðning með ýmsum hætti frá því þeir voru fyrst haldnir árið 1976 en með undirrituninni var framlag og styrkur sveitarfélagsins við leikana formlega staðfestur og festur í sessi. Framlag Akureyrarbæjar felst í fjárframlagi og aðstöðu fyrir leikana í Hlíðarfjalli og Íþróttahöllinni. Andrésar andar leikarnir eru einn stærsti árlegi íþróttaviðburðurinn sem fram fer á Akureyri. Keppendur eru að þessu sinni tæplega 900.

Daginn eftir undirritun samningsins, sumardaginn fyrsta, var fyrsta skóflustungan að nýrri stólalyftu í Hlíðarfjalli tekin og má segja að þar með hafi undirbúningur framkvæmda hafist með formlegum hætti. Fjórir keppendur á Andrésar andar leikunum tóku fyrstu skóflustunguna.

Framkvæmdin er hluti af samstarfs- og leigusamningi milli Vina Hlíðarfjalls og Akureyrarbæjar um leigu og rekstur á lyftunni til næstu fimmtán ára.

Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli með krökkunum fjórum sem tóku fyrstu skóflustungurnar að nýrri stólalyftu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan