Allskonar Akureyri - ný mannréttindastefna

Fjölbreytni, jöfn meðferð og vernd gegn mismunun í víðum skilningi er leiðarstef í nýrri mannréttindastefnu Akureyrarbæjar til ársins 2023. Yfirskrift stefnunnar sem var samþykkt í bæjarstjórn 17. mars er Allskonar Akureyri og fangar vel markmið sveitarfélagsins um fjölbreytt samfélag.

Fram til þessa hefur jafnréttisstefna Akureyrarbæjar takmarkast við jafnrétti kynjanna í samræmi við íslenska jafnréttislöggjöf, en stefnan hefur nú verið útvíkkuð og er í fyrsta sinn komin fram heildstæð mannréttindastefna sveitarfélagsins sem hefur þann tilgang að tryggja vernd allra íbúa og fyrirbyggja mismunun.

Hér er hægt að skoða mannréttindastefnuna. 

Framtíðarsýn í stuttu máli:

- Íbúar á Akureyri njóti mannréttinda og jafnrar meðferðar án tillits til uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, kyns, kynhneigðar, fötlunar eða annarra þátta sem greina fólk að.
- Mannréttindi og fjölbreytni eru leiðarstef í stefnumótun og ákvarðanatöku hjá Akureyrarbæ.
- Íbúum á Akureyri líður vel og hafa jákvætt viðhorf til sín og annarra.
- Akureyrarbær vinnur með og á viðskipti við aðila sem vilja efla frumkvæði, nýsköpun og þekkingaröflun á sviði mannréttinda.

Akureyrarbær vinnur að mannréttindum:

- Sem stjórnvald
- Sem vinnuveitandi
- Sem þjónustuaðili
- Sem samstarfsaðili

Vinna gegn staðalímyndum forgangsmál

„Við erum með þessari stefnu að tryggja réttindi fleiri hópa en áður," segir Bryndís Elfa Valdemarsdóttir, starfandi deildarstjóri forvarna- og frístundadeildar Akureyrarbæjar. Lykilatriði sé að tímasett og metnaðarfull aðgerðaáætlun fylgi mannréttindastefnunni. 

„Eitt af því sem við þurfum að byrja á er að taka fyrir staðalímyndirnar. Við höfum heyrt heilmikið um staðalímyndir kynjanna, en við þurfum að átta okkur á því að við erum líka með ákveðnar fyrirfram gefnar hugmyndir um aðra hópa," segir Bryndís.

„Við þurfum líka að skoða þjónustuna út frá fleirum, til dæmis hvernig við erum að þjóna fötluðu fólki til jafns við aðra og allt slíkt. Við höfum vissulega verið að gera margt, en við getum gert betur," segir Bryndís sem ræddi meðal annars um mannréttindastefnuna í Akureyringum, hlaðvarpi Akureyrarbæjar. 

 

Myndrænt yfirlit yfir helstu aðgerðir þessa árs: 

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan