Álfar og huldufólk

Dulúð hefur ávallt fylgt samskiptum manna og álfa. Það er því ekki að ástæðulausu að dulúðlegur blámi umlykur sumarsýningu Minjasafnsins á Akureyri, Álfar og huldufólk, sem verður opnuð miðvikudaginn 1. júní kl 17. Hvaðan kemur huldufólkið? Er huldufólkskaupstaður í Halllandsbjörgum á móts við Akureyri? Hvernig voru og eru samskipti álfa og huldufólks við menn? Vissir þú að minnstu munaði að Bólu-Hjálmar endaði hjá óhamingjusamri álfkonu í hulduheimum?

Sýningin samanstendur af útskurðarverkum listakonunnar Ingibjargar H. Ágústsdóttur sem tengjast gripum og sögum af huldufólki og samskiptum þeirra við menn, gripa úr hulduheimum sem varðveittir hafa verið í Þjóðminjasafni Íslands ásamt gripum í einkaeign. Við þessa mögnuðu blöndu bætist fróðleikur um þjóðtrúna sem tengd er álfum og huldufólki og gefur gestum safnsins góða innsýn inní hulduheima.

Bæjarstjórinn á Akureyri Eiríkur Björn Björgvinsson opnar sýninguna. Í tengslum við hana gefst gestum tækifæri til þess að ganga með leiðsögn um huldufólksslóð á Akureyri þann 9. júní kl 20. Í lok ágúst verður síðan sögusigling um Pollinn í samstarfi við Húna II þar sem álfabyggðir, álfar og huldufólk leika stærsta hlutverkið. Nánari upplýsingar má nálgast á www.minjasafnid.is.

Vert er að vekja athygli á að í tengslum við undirbúning sýningarinnar óskaði safnið eftir álfasögum og gripum úr héraði sem og af öllu landinu. Það bar góðan ávöxt en starfsfólk safnsins vill ítreka að tekið verður áfram við sögum og gripum á meðan sýningin stendur yfir.

minjasafn_alfarhuldufolk

Útskurðarverk Ingibjargar H. Ágústsdóttur sem byggt er  á sögunni: Álfkonan hjá Krossum þar sem sagt er frá óhamingjusamri huldukonu sem vildi fá Bólu?Hjálmar sem eiginmann og færa hann til hulduheima.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan