Aldrei fleiri nýtt frístundastyrkinn

Frístundastyrk má meðal annars nota til að greiða fyrir kort í Hlíðarfjall.
Frístundastyrk má meðal annars nota til að greiða fyrir kort í Hlíðarfjall.

Frístundastyrkur Akureyrarbæjar var í fyrra notaður til niðurgreiðslu þátttökugjalda í íþrótta- og tómstundastarfi um 80% barna og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Nýting á frístundastyrknum hefur aldrei verið eins mikil.

2.615 börn nutu góðs af frístundastyrknum með einum eða öðrum hætti 2019 og var notuð um 95% af upphæðinni sem stóð til boða. Það jafngildir styrk upp á 33.082 krónur að meðaltali á hvern iðkanda. Til samanburðar var meðaltals styrkupphæð 28.857 krónur árið 2018. Akureyrarbær varði í heild tæplega 87 milljónum króna í frístundastyrki í fyrra.

Kynjahlutfallið milli skráninga var hnífjafnt, 50% drengir og 50% stúlkur. Flestar skráningar voru hjá Íþróttafélaginu Þór (21%) og Knattspyrnufélagi Akureyrar (17%). Í fyrra voru hlutfallslega flestar skráningar meðal barna sem eru fædd árin 2010 og 2012. Áberandi fæstar skráningar voru hjá elsta árganginum, 2002.

Frístundastyrkur ársins 2020 nemur 40.000 krónum á hvern iðkanda. Í þjónustugáttinni er hægt að skoða ráðstöfun og sækja um styrkinn. Hér eru ýmsar upplýsingar 

Nokkrir fróðleiksmolar um frístundastyrk:
• Styrkupphæðin hefur fjórfaldast frá árinu 2014.
• Nýting hefur aukist samhliða hækkandi upphæð, en einnig hefur verið lögð áhersla á að fjölga nýtingarmöguleikum.
• Samstarfsaðilar (íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafélög, stofnanir og fyrirtæki) sem tóku við frístundastyrk bæjarins í fyrra voru 38 talsins. Þeim hefur fjölgað um 11 frá 2016.
• Frístundastyrkur einskorðast ekki við skipulagðar æfingar eða námskeið, heldur má til dæmis nota hann til að kaupa aðgang að líkamsræktarstöðvum, vetrarkort í Hlíðarfjall eða árskort í Sundlaug Akureyrar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan