Álagningu fasteignagjalda lokið hjá Akureyrarbæ

Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Álagningu fasteignagjalda er lokið hjá Akureyrarbæ og eru álagningarseðlar aðgengilegir fasteignaeigendum í þjónustugátt sveitarfélagsins og á island.is.

Álagningarseðlar eru ekki sendir út á pappír og sparar það bæði fé og fyrirhöfn fyrir utan að vera mun umhverfisvænna. Álagning dreifist líkt og áður á 8 gjalddaga frá 3. febrúar til 3. september og eindagi er 30 dögum síðar.

Álagningarprósenta fasteignaskatts fyrir íbúðarhúsnæði er óbreytt frá fyrra ári og er 0,31% af fasteignamati. Álagningarprósenta af öðru húsnæði er óbreytt 1,63% og 1,32% af fasteignamati skóla, sjúkrahúsa, bókasafna og íþróttahúsa. Sjá nánar í gjaldskrá.

Heildarálagning fasteignagjalda ársins 2025 er 6.444 milljónir króna, þar af er fasteignaskattur 3.817 milljónir, lóðarleiga er 840 milljónir, vatnsgjald 479 milljónir króna, fráveitugjald 768 milljónir og sorphirðugjald 540 milljónir króna. Sorphirðugjald er lagt á 9.069 heimili sem er fjölgun um 313 heimili frá fyrra ári. Á árinu 2024 nam álagning fasteignagjalda samtals 5.857 milljónum króna.

873 lífeyrisþegar fá afslátt

Bæjarstjórn samþykkti breytingu á reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum og hækkaði tekjumörk. Nú fá 873 elli- og örorkulífeyrisþegar afslátt og nemur heildarfjárhæð afsláttar 83 milljónum króna eða 95 þúsund krónum að meðaltali.

Afsláttur ræðst af tekjum og getur hæstur orðið 149.500 krónur. 150 fasteignaeigendur njóta hámarksafsláttar og 344 fasteignaeigendur njóta fulls afsláttar af fasteignasköttum sínum. Árið áður nutu 962 afsláttar af fasteignaskatti og nam heildarfjárhæðin 90 milljónum króna. Reglurnar er hægt að nálgast hér. Afsláttur af fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattframtali 2024 og þarf ekki að sækja sérstaklega um.

Ný gjaldskrá sorphirðugjalda

Sorphirðugjöld eru sem fyrr innheimt með fasteignagjöldum. Á árinu 2024 og fram á núverandi ár hafa staðið yfir breytingar á flokkun sorps við heimili. Lesa má meira um það hér.

Þessi breyting hefur áhrif á gjaldskrá og innheimtu sorphirðugjalda. Áður var innheimt fast gjald á hverja íbúð óháð gerð hennar og stærð. Nú er áfram innheimt lægra fast gjald á hverja íbúð en að auki eru innheimt mismunandi gjöld eftir stærð og gerð sorpíláta.

Sorphirðugjald fyrir Íbúðir þar sem þjónustan er oft og tíðum samnýtt, líkt og í fjölbýlishúsum, stendur í mörgum tilvikum í stað eða lækkar talsvert. Sérbýli, t.d. einbýli, rað- og parhús, bera hins vegar hærri gjöld og er það í samræmi við þann kostnað sem sveitarfélagið stendur straum af vegna sorphirðunnar.

Á álagningarseðlum má sjá sorphirðugjöld viðkomandi eignar, bæði fastagjaldið og ílátagjöld. Upphæðir ílátagjalda taka mið af gjaldskránni auk þess sem í fjölbýlishúsum er upphæð á hverja íbúð í hlutfalli við fermetrastærð íbúðar.

Sérbýli greiða skv. gjaldskrá þeirra íláta sem þau fá. Þá geta tvö eða fleiri sérbýli sameinast um ílát ef það hentar og þannig lækkað upphæð álagðra ílátagjalda. Hægt er að senda inn óskir um breytingar á fjölda og samsetningu íláta á netfangið: flokkumfleira@akureyri.is.

Skorað er á þau húsfélög og eigendur fasteigna sem enn eiga eftir að ákveða fjölda og stærð sorpílata að gera það sem fyrst því ekki verður innheimt umsýslugjald vegna ílátabreytinga í febrúar, mars og apríl 2025 en eftir það verður innheimt umsýslugjald fyrir hverja breytingu, það er nú 4.000 kr. skv. gjaldskrá.

Auðvelt er að koma ábendingum til skila HÉR í gegnum ábendingakerfi Akureyrarbæjar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan