Álagning fasteignagjalda 2021

Álagningu fasteignagjalda er lokið hjá Akureyrarbæ og eru álagningarseðlar aðgengilegir fasteignaeigendum í þjónustugátt sveitarfélagsins og á island.is.

Álagningarseðlar eru ekki sendir út á pappír og sparar það bæði fé og fyrirhöfn fyrir utan að vera mun umhverfisvænna. Eftir sem áður geta þeir sem þess óska fengið álagningarseðil á pappír með því að fylla út umsóknarform í þjónustugáttinni.

Álagningarprósenta fasteignaskatts er óbreytt á milli ára, 0,33% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, 1,63% af öðru húsnæði og 1,32% af fasteignamati skóla, sjúkrahúsa, bókasafna og íþróttahúsa.

Heildarálagning fasteignagjalda ársins 2021 eru 4,2 milljarðar króna, þar af er fasteignaskattur 2.456 milljónir króna, lóðarleiga er 538 milljónir króna, vatnsgjald er 346 milljónir króna, fráveitugjald 517 milljónir og sorphirðugjald 344 milljónir. Sorphirðugjald er lagt á 8.392 heimili sem er fjölgun um 156 heimili frá fyrra ári. Á árinu 2020 nam álagning fasteignagjalda samtals 4.069 milljónum króna.

718 lífeyrisþegar fá afslátt

Bæjarstjórn samþykkti breytingu á reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum og hækkaði tekjumörk. 718 elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt og nemur heildarfjárhæð afsláttar tæplega 57 milljónum króna eða 79.144 krónur að meðaltali. Afslátturinn er mishár eftir tekjum en getur hæst farið í 117.700 krónur. 97 fasteignaeigendur njóta hámarksafsláttar. Árið áður nutu 764 afsláttar af fasteignaskatti og nam heildarfjárhæðin 53 milljónum króna.

Reglurnar er hægt að nálgast hér. Afsláttur af fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattframtali 2020 og þarf ekki að sækja sérstaklega um.

Allar greiðslur í heimabanka

Frá og með árinu 2021 er ekki boðið upp á greiðslu fasteignagjalda með boðgreiðslum á kreditkort. Allar greiðslur fara fram með kröfu í netbanka. Vakin er athygli á þeim möguleika að skrá kröfur í beingreiðslu, það er hægt að gera í netbanka eða hjá viðskiptabanka greiðanda.

Hesthúsaeigendur fá endurgreitt

Bæjarráð samþykkti nýverið að endurgreiða gjaldendum fasteignaskatts á hesthús hluta af gjöldum síðustu fjögurra ára vegna misræmis á álagningu á hesthús og aðrar fasteignir. Röng álagningarprósenta var lögð á hesthús og hlöður og er því endurgreitt í samræmi við lög um innheimtu um opinberra skatta og gjalda.

Endurgreiðslan á við samtals 128 eignir og nemur heildarfjárhæðin um 6,6 milljónum króna. Meðalfjárhæð endurgreiðslu er 51.752 krónur á hverja eign. Haft verður samband við eigendur þessara fasteigna og greitt út á næstunni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan