Akureyringar: Nýtt hlaðvarp Akureyrarbæjar

Fyrsti þáttur af Akureyringum, nýju hlaðvarpi Akureyrarbæjar, er kominn í loftið. Þetta er ný og spennandi aðferð til að miðla upplýsingum um verkefni og þjónustu sveitarfélagsins, en ekki síður leið til að kynnast alls konar fólki, heyra sögur Akureyringa sem skara fram úr á sínu sviði, vinna gott starf í þágu íbúa og auðga samfélagið okkar.

Akureyrarbær hefur lagt áherslu á framsækna upplýsingamiðlun og að auka fjölbreytni í miðlunarleiðum. Hlaðvarpið er einn liður í því. 

Fyrsti viðmælandi er Kristján Bergmann Tómasson, Mummi, sem er umsjónarmaður Ungmennahúss, upplýsinga- og menningarmiðstöðvar fyrir ungt fólk frá 16 ára aldri. Í Ungmennahúsi er boðið upp á ýmsa þjónustu og starfsemi á sviði menningar, lista, fræðslu og tómstunda, en auk þess býður starfsfólk upp á ráðgjöf og stuðning fyrir ungt fólk. Ungmennahúsið tilheyrir samfélagssviði Akureyrarbæjar og er staðsett í Rósenborg.

Í viðtalinu segir Mummi frá sínum verkefnum og ræðir um þjónustu við ungt fólk og möguleika þess. Hann segir okkur einnig frá sjálfum sér og áhugamálunum, sem tengjast flest einhvers konar útivist. „Ég renni mér á bretti og skíðum og er líka mikið að skinna, ganga á fjöll og renna mér niður. Svo er ég á kafi í fjallahjólum líka allt árið um kring. Það er svo stutt í allt, við hjólum bara út úr bænum, ekkert skutl eða vesen nema ef við förum í stærri verkefni. Það er svo einfalt að fara í allt með fjöllin hérna í kringum okkur og þetta er að því leytinu til algjör paradís,“ segir Mummi. 

Umsjónarmaður hlaðvarpsins er Jón Þór Kristjánsson, verkefnastjóri upplýsingamiðlunar hjá Akureyrarstofu. 

Hér er hægt að hlusta á fyrsta þáttinn. Hlaðvarpið er einnig á Soundcloud og Spotify og verður innan tíðar aðgengilegt á fleiri efnisveitum. 

Undanfarna mánuði hafa reglulega verið birtar stuttar frásagnir, eða örviðtöl, á Facebook-síðu sveitarfélagsins undir yfirskriftinni #Akureyringar. Þannig höfum við fengið að skyggnast bak við tjöldin og kynnast fjölbreyttum hópi fólks sem hefur áhugaverða sögu að segja. Áfram verður haldið með verkefnið, en nú bætist hlaðvarpið við og því geta íbúar og aðrir áhugasamir um fólk og málefni Akureyrarbæjar hlustað á lifandi og fróðleg viðtöl, til viðbótar við aðra fjölbreytta upplýsingagjöf sveitarfélagsins. 

Kristján Bergmann Tómasson

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan