Listasafnið á Akureyri greiðir listamönnum

Tölvuteikning úr nýjum húsakynnum Listasafnsins á Akureyri.
Tölvuteikning úr nýjum húsakynnum Listasafnsins á Akureyri.

Á fundi stjórnar Akureyrarstofu 8. febrúar sl. voru samþykkt drög að verklagsreglum um verkefnið "Greiðum listamönnum". Í fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir 1,5 m.kr. viðbótarfjárveitingu vegna verkefnisins og byggir hún á því að fjárheimildir sem á vantar til að fjármagna það að fullu séu þegar fyrir í rekstri safnsins, en heildarkostnaður er áætlaður um 4,5 m.kr. Stjórn Akureyrarstofu leggur áherslu á að kostnaðurinn verði sýnilegur í bókum safnsins.

Listasafnið á Akureyri hafði áður mótað umræddar verklagsreglur og stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) samþykkt þær. Reglurnar fela í sér greiðslur til myndlistarmanna fyrir sýningar eftir umfangi þeirra. Einnig verður greitt fyrir vinnu listamanna við að setja upp sýningar samkvæmt taxta SÍM. Markmið verklagsreglna er að tryggja að listamenn fái sanngjarnar greiðslur fyrir þátttöku í sýningum og vinnuframlag sem innt er af hendi í tengslum við sýningar á verkum þeirra.

Listasafnið á Akureyri er annað safnið á eftir Listasafni Reykjavíkur til að gera verklagsreglur tengdar átakinu "Greiðum listarmönnum".

Byrjað verður að greiða samkvæmt verklagsreglunum þegar nýtt og endurbætt Listasafn á Akureyri verður opnað með sjö nýjum sýningum í sumar. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan