Akureyrarbær fékk viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2019

Halla Margrét Tryggvadóttir veitir viðurkenningu Jafnréttisvogarinnar viðtöku úr hendi Elizu Reid.
Halla Margrét Tryggvadóttir veitir viðurkenningu Jafnréttisvogarinnar viðtöku úr hendi Elizu Reid.

Akureyrarbær var í gær annað tveggja íslenskra sveitarfélaga til að hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2019. Viðurkenningarathöfn fór fram á Grand Hótel í Reykjavík og veitti Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar, þeim viðtöku fyrir hönd sveitarfélagsins.

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni FKA, veitti viðurkenningar til sextán fyrirtækja og tveggja sveitarfélaga úr hópi þeirra aðila sem undirrituðu viljayfirlýsingu á síðasta ári og tóku þátt í könnun um aðgerðir sem gripið var til. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í framkvæmdastjórn og stjórn var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar haustið 2018 hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim fyrirtækjum sem hafa náð markmiðunum. Auk þess vekja þátttakendur í Jafnvægisvoginni athygli á jafnréttismálum innan sinna fyrirtækja með ýmsum öðrum hætti.

Tilgangur Jafnvægisvogarinnar er:

  • Að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.
  • Að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.
  • Að veita viðurkenningar og draga fram í sviðljósið fyrirtæki sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar.
  • Að standa fyrir viðburðum og fræðslu og vekja samfélagið til hugsunar um virði fjölbreytileika og jafnvægis.
  • Að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöður.


Fulltrúar allra viðurkenningarhafa sem eru: Akureyrarbær, Árnasynir auglýsingastofa, Deloitte ehf, Guðmundur Arason ehf, iClean ehf, Íslandsbanki, Íslandshótel, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Mosfellsbær, Nasdaq Iceland hf, Olíuverzlun Íslands ehf, Pipar TBWA, Reiknistofa Bankanna, Rio Tinto á Íslandi, Sagafilm ehf, Sjóvá, VÍS og Vörður tryggingar hf.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan