Akureyrarbær fær nýtt nafn í afmælisgjöf

Akureyrarbær á afmæli í dag, 29. ágúst, og eru liðin 157 ár frá því bærinn hlaut kaupstaðarréttindi. Það er vel við hæfi að breyting á heiti sveitarfélagsins, úr Akureyrarkaupstað í Akureyrarbæ, hafi verið staðfest opinberlega í dag.

Bæjarstjórn samþykkti í byrjun júní að breyta formlegu heiti sveitarfélagsins. Var það gert í kjölfar könnunar meðal íbúa sem sýndi að mikill meirihluti vildi breyta nafninu í Akureyrarbæ. Það nafn hefur enda verið notað lengi um sveitarfélagið og dregið mjög úr notkun á endingunni -kaupstaður.

Samþykktin var með fyrirvara um jákvæða umsögn örnefnanefndar og staðfestingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Akureyri er og verður Akureyri

Örnefnanefnd samþykkti breytinguna í lok júní og vísaði til þess í rökstuðningi að þetta væri aðeins breyting á stjórnsýsluheiti og ætti ekki að hafa áhrif á örnefnið forna Akureyri. Nú hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, einnig samþykkt breytinguna og var hún staðfest með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda í morgun, á sjálfan afmælisdaginn.

Óhætt er að segja að afmælisbarnið blómstri sem aldrei fyrr, en nýverið náði íbúafjöldi sveitarfélagsins 19 þúsund. 

Akureyrarvaka um helgina

Hefð er fyrir því að fagna afmælinu með Akureyrarvöku sem verður haldin um helgina. Dagskráin er afar vegleg og fjölbreytt.

Til hamingju með daginn, allir íbúar Akureyrbæjar!

Hér eru ýmsar upplýsingar um Akureyri og brot úr sögu bæjarins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan