Akureyrarbær átti fulltrúa á ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði

Ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði var haldin í Hörpu þann 17. september sl. Akureyrarbær átti þar tvo verðuga fulltrúa, Telmu Ósk Þórhallsdóttur og Rakel Öldu Steinsdóttur sem sitja í ungmennaráði sveitarfélagsins.

Tilgangurinn með ráðstefnunni sem hefur verið haldin árlega frá 2009 á vegum UMFÍ er að efla lýðræðislega þátttöku ungs fólks í leik og starfi. Þetta er samræðuvettvangur fólks á aldrinum 16-25 ára og er markmiðið að gefa ungmennum verkfæri og þjálfun til að auka áhrif sín í nærsamfélaginu. Mikil áhersla er lögð á að einstaklingar geti styrkt sjálfsmynd sína og tekið upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífsstíl.

Dagskráin var fjölbreytt og samanstóð til dæmis af fyrirlestrum, málstofum og hópefli. Í lok ráðstefnunnar voru pallborðsumræður þar sem ungmennin fengu tækifæri til að beina spurningum að ráðherrum, þingmönnum og borgarfulltrúum.

Telma og Rakel tóku virkan þátt í dagskránni og settu sitt mark á ráðstefnuna. „Heilt yfir var þetta mjög uppbyggileg upplifun. Þetta er mikilvægt málefni sem ekki má hætta að berjast fyrir. Ráðstefnan var líka frábær leið til að heyra frá hinum ungmennaráðum landsins,“ segir þær.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan