Áhugaverðar vísbendingar um líðan barna á tímum Covid-19

Skjárinn er nú til sýnis á Amtsbókasafninu.
Skjárinn er nú til sýnis á Amtsbókasafninu.

Niðurstöður þátttökuverkefnisins „Ég og Kóróna“ benda til þess að Covid-19 faraldurinn og tengdar takmarkanir hafi haft mjög mismunandi áhrif á börn á Akureyri. Þótt þeim hafi almennt gengið ágætlega að laga sig að aðstæðum þá leið mörgum börnum skringilega í samkomubanninu.

Félagsmiðstöðvar Akureyrar og Ungmennahúsið í Rósenborg í samvinnu við leik-, grunn-, og framhaldsskóla bæjarins hleyptu verkefninu af stokkunum fyrir rúmum mánuði. Hugmyndin var að nota tæknina til afla upplýsinga um líðan barna og ungmenna á þessum skrítnu tímum og um leið gefa þeim tækifæri til að tjá tilfinningar sínar nafnlaust og á öruggan hátt.

Horfa á björtu hliðarnar

Öll börn á Akureyri gátu skrifað eitt orð um sína líðan inn á sameiginlegt vefsvæði og úr varð eins konar orðasúpa tilfinninga á skjá í miðbænum.

Ólafía Kristín Guðmundsdóttir, sérfræðingur í hópastarfi hjá Félagsmiðstöðvum Akureyrar, segir að þessi tilraun hafi gefist vel. „Þetta orðaský leiddi kannski einna helst í ljós hvað börn hafa mikla aðlögunarhæfni og ná oft að sjá það jákvæða. Líðan barnanna var samt mjög mismunandi,“ segir Ólafía.

En hvaða orð komu oftast upp?

Flestir nefndu með einum eða öðrum hætti að þeim liði skringilega eða að þetta væri skrýtið. „Sem er skiljanlegt þar sem aðstæður voru mjög óvenjulegar og allir voru að upplifa eitthvað alveg nýtt,“ segir Ólafía.

Þrátt fyrir að mörgum börnum hafi augljóslega þótt erfitt að vera ekki í rútínu og að geta ekki tekið þátt í tómstundum eða hitt vini eins og áður þá segir Ólafía að stórum hluta þátttakenda hafi þótt gott að geta verið meira með fjölskyldunni. Sumir lýstu því jafnvel sem létti að losna undan hversdagslegum skyldum eins og til dæmis hefðbundnu skólastarfi.

Raddir barna á Amtsbókasafninu

Skjárinn hefur nú verið fluttur á Amtsbókasafnið og er hluti af sýningunni Raddir barna. Þar má skoða dæmi um verkefni sem hafa verið unnin á vegum Akureyrarbæjar síðustu ár og eru til þess fallin að koma röddum barna og ungmenna á framfæri. Á vef Amtsbókasafnsins eru nánari upplýsingar um sýninguna.

Í framhaldinu er stefnt að því að nota niðurstöður verkefnisins í skóla- og félagsstarfi til þess að ræða um líðan barna. „Svo er auðvitað spennandi að nota svona orðaský í auknum mæli því svo virðist sem börn og unglingar séu líklegri til að tjá sig með þessari aðferð en mörgum öðrum,“ segir Ólafía.

Myndir frá sýningunni Raddir barna:

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan