Afmælismerki Akureyrarbæjar

150 ára afmælismerki Akureyrarbæjar.
150 ára afmælismerki Akureyrarbæjar.

Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar á næsta ári var efnt til samkeppni um merki afmælisársins meðal nemenda við listhönnunardeild Myndlistarskólans á Akureyri. Í dag var tilkynnt að merki Sigrúnar Bjargar Aradóttur, nemanda á þriðja ári, hefði verið valið sem einkennismerki fyrir 150 ára afmælið.

Leiðbeinandi nemenda í verkefninu var Þórhallur Kristjánsson.

Að mati dómnefndar uppfyllir merki Sigrúnar allar kröfur sem gerðar eru til tækifærismerkis sem þessa. Þannig býður uppbygging merkisins upp á ólíkar birtingarmyndir, t.d. í smækkaðri framsetningu á minjagripum. Í greinargerð sem fylgir vinningstillögunni segir hönnuðurinn m.a.: „Merkið er byggt á merki Akureyrarkaupstaðar með tilvísun í örninn.“

Það er álit dómnefndar að þessi tilvísun gangi fyllilega upp. Sumpart leitar höfundurinn fanga í fortíðinni sem núverandi byggðamerki byggir á og um leið er framsetningin framsækin og í takt við núið. Myndmál merkisins er sterkt og tengingin við Akureyri skýr; áberandi form í merkinu eru vængir arnarins sem teygjast til himins en eru um leið umfaðmandi. Með því að rjúfa merkið í nokkur form, þá myndar bilið á milli þeirra töluna 150. Þetta gerir að verkum að merkið stendur vel fyrir sínu án stuðnings af letri, sem sannarlega er styrkur.

Dómnefndina skipuðu:
Pétur Bolli Jóhannesson, skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar
Bryndís Óskarsdóttir, grafískur hönnuður
Guðrún Harpa Örvarsdóttir, formaður Myndlistarfélagsins á Akureyri
Helgi Vilberg, skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri
Arnfríður Arnardóttir, myndlistarmaður og kennari
Þórhallur Kristjánsson, grafískur hönnuður

Pétur Bolli formaður dómnefndar og Sigrún Björg með afmælismerkið á milli sín.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan