Afkoma í takt við áætlun

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Árshlutareikningur fyrir A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2019 var lagður fram í bæjarráði í gær. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 449,4 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 449,2 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar á fyrri hluta ársins er því samkvæmt áætlun.

Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 568,2 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 750,8 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því talsvert betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur samstæðunnar námu samtals 13.192 milljón krónum en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 13.187 milljónir króna. Skatttekjur voru 5.959 milljónir króna sem er 51 milljón krónum umfram áætlun. Tekjur frá Jöfnunarsjóði námu 1.673 milljónum króna sem er 53 milljónum umfram áætlun. Aðrar tekjur voru 5.560 milljónir króna sem er 99 milljónum króna undir áætlun.

Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 12.097 milljónir króna sem er 185 milljónum króna umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld námu 7.628 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 7.604 milljón krónum. Annar rekstrarkostnaður var 4.263 milljónir króna sem er 161 milljón krónum undir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, námu 649 milljónum króna sem er 169 milljón krónum undir áætlun. Afskriftir voru 895 milljónir króna samanborið við 871 milljón í áætlun.

Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar nam veltufé frá rekstri 934 milljónum króna eða 7,1% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar námu 1.955 milljón krónum og fjármögnunarhreyfingar -246 milljónum króna. Afborganir lána námu 334 milljónum króna. Engin ný langtímalán voru tekin á tímabilinu. Handbært fé var 1.866 milljónir króna í lok júní.

Fastafjármunir námu 49.504 milljón krónum og veltufjármunir 4.869 milljónum króna. Eignir námu samtals 54.373 milljónum króna samanborið við 54.232 milljónir króna á árslok 2018. Eigið fé var 24.344 milljónir króna en var 24.796 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar námu 25.276 milljónum króna en námu 25.385 milljónum króna í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 4.753 milljónir króna en voru 4.052 milljónir króna um sl. áramót.

Veltufjárhlutfall var 1,02 á móti 1,38 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 44,8% í lok júní.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan