Afkoma ívið betri en áætlun gerði ráð fyrir

Árshlutareikningur fyrir A- og B-hluta Akureyrarbæjar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2021 var lagður fram í bæjarráði í dag. Árshlutauppgjörið er óendurskoðað en verður með könnunaráritun eftir fund bæjarstjórnar.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 706,5 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.075,2 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma samstæðunnar á fyrri hluta ársins er því nokkru betri en áætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur 369 milljónum króna.

Rekstrarniðurstaða A-hluta á fyrri hluta ársins var neikvæð um 795 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.013 milljónir króna á tímabilinu. Afkoma A-hluta er því 218 milljónum króna betri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur samstæðunnar voru samtals 13.903 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að tekjur yrðu 14.027 milljónir króna. Skatttekjur voru 6.672 milljónir króna sem er 344 milljónum umfram áætlun. Tekjur frá Jöfnunarsjóði voru 1.692 milljónir króna sem er 167 milljónum undir áætlun. Aðrar tekjur voru 5.540 milljónir króna sem er 301 milljón undir áætlun.

Rekstrargjöld samstæðunnar fyrir afskriftir voru samtals 12.683 milljónir króna sem er 585 milljónum undir áætlun. Laun og launatengd gjöld voru 8.357 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 8.824 milljónum króna. Annar rekstrarkostnaður var 3.888 milljónir króna sem er 359 milljónum undir áætlun. Fjármagnsgjöld, nettó, voru 837 milljónir króna sem er 47 milljónum króna umfram áætlun. Afskriftir voru 1.037 milljónir króna samanborið við 1.022 milljón króna í áætlun.

Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 1.164 milljónir króna eða 8,37% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar voru 1.802 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 56 milljónir króna. Afborganir lána voru 542 milljónir króna. Ný langtímalán voru tekin fyrir 600 milljónir króna á tímabilinu. Handbært fé var 2.341 milljón króna í lok júní.

Fastafjármunir samstæðunnar voru 54.711 milljónir króna og veltufjármunir 5.335 milljónir króna. Eignir voru samtals 60.046 milljónir króna samanborið við 59.404 milljónir króna í árslok 2020. Eigið fé var 24.350 milljónir króna en var 25.063 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 30.378 milljónir króna en voru 29.702 milljónir króna í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 5.318 milljónir króna en voru 4.639 milljónir króna um sl. áramót.

Veltufjárhlutfall var 1,0 á móti 1,23 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 40,6% í lok júní.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan