„Aðdáunarvert að fylgjast með starfsfólki“

Gleði og lausnamiðuð hugsun í Naustatjörn. Leikskólanum er skipt í þrjú hólf og enginn samgangur mil…
Gleði og lausnamiðuð hugsun í Naustatjörn. Leikskólanum er skipt í þrjú hólf og enginn samgangur milli barna né kennara. Börnin í einum hópi voru að koma úr vettvangsferð, gengu fram hjá skrifstofu Jónínu Hauksdóttur skólastjóra og sungu fyrir hana í gegnum glugga, því Jónína fær ekki að hitta þau næstu vikurnar.

Mikið hefur mætt á starfsfólki leik- og grunnskóla eftir að settar voru á takmarkanir vegna útbreiðslu Covid-19. Í raun hefur þurft að endurskoða allt skipulag í skólunum og laga að tilmælum yfirvalda, með það að markmiði að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks en þó þannig að áhrifin séu eins lítil og mögulegt er.

„Það hefur að langmestu leyti gengið eftir þótt skipulag og aðstæður séu mismunandi eftir skólum," segir Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs. „Þetta hefur auðvitað verið krefjandi síðasta vika. Við þurftum að loka tveimur deildum á Hólmasól og svo hefur þurft að takmarka fjölda nemenda á Tröllaborgum vegna húsnæðisins þar og koma börn að jafnaði annan hvern dag í leikskólann. Í grunnskólum er skipulagið mismunandi, en heilt yfir hefur okkur tekist að halda úti góðu og uppbyggilegu skólastarfi, kannski dálítið óvenjulegu, en nemendur taka þessu ótrúlega vel," segir Karl.

Hann vill koma á framfæri þökkum til skólastjórnenda og starfsfólks. „Það hefur í raun verið aðdáunarvert að fylgjast með starfsfólki leysa hvert verkefnið af fætur öðru síðustu daga. Þetta er ekki einfalt og á svona tímum er kannski auðveldast að fara í vörn, en okkar starfsfólk hefur verið í mikilli sókn. Bjartsýni, jákvætt viðhorf og lausnamiðuð hugsun hefur einkennt starfið bæði í leik- og grunnskólum.

Foreldrar eiga líka þakkir skildar fyrir að undirbúa börnin vel og sýna ástandinu skilning. Margir hafa ákveðið að hafa sín börn heima, til dæmis hluta úr degi, og það hefur hjálpað mikið og dregið úr álagi á starfsfólk," segir Karl.

„Það er gríðarlega mikilvægt að finna og sjá fagmennskuna hjá þessum lykilstofnunum samfélagsins, leik- og grunnskólum, þegar erfiðar aðstæður koma upp," segir Ingibjörg Isaksen, formaður fræðsluráðs. „Samvinna er augljóslega mikil og fólk er staðráðið í að láta þetta ganga upp. Mig langar bara að segja takk, kæra starfsfólk og nemendur leik- og grunnskóla, fyrir ykkar ómetanlega framlag til þessa og gangi okkur áfram vel," segir Ingibjörg.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan