Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 - drög til kynningar

Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 er í vinnslu og eru drög aðgengileg á heimasíðu Akureyrar www.akureyri.is.

Í 2. mgr. 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010 segir: „Áður en tillaga að aðalskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan, forsendur hennar og umhverfismat, þegar við á, kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt.“

Í samræmi við þetta voru drög að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 send til umsagnar nágrannasveitarfélaganna og ýmissa opinberra stofnana í byrjun mars s.l. Kynningarfundur var haldinn í Hofi 28. mars s.l. Þar fór Dr. Bjarki Jóhannesson sviðsstjóri skipulagssviðs og höfundur aðalskipulagsins yfir helstu áherslur þess. Fundurinn var öllum opinn og fundarsókn góð. Auk þess voru drögin birt á vefsíðu Akureyrarbæjar.

Íbúum og öðrum hagsmunaaðilum var gefinn kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir á þessu stigi skipulagsvinnunnar, og skyldi þeim skilað skriflega til Skipulagssviðs Akureyrarkaupstaðar, Geislagötu 9, 3. hæð eða með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is). Alls bárust umsagnir frá 20 aðilum, og 45 ábendingar bárust frá 65 aðilum. Farið var yfir allar umsagnir og ábendingar í skipulagsráði, metið á hvaða viðbrögð þær kölluðu, og hvort þær leiddu til breytinga á aðalskipulagstillögunni. Ýmsar breytingar voru gerðar, og samantekt á umsögnum og viðbrögðum, ábendingum og viðbrögðum má finna hér á vefsíðunni, ásamt uppfærðri greinargerð og uppdráttum eftir þessa yfirferð.

Næstu skref:

Þegar vandlega hefur verið farið yfir greinargerðina og uppdrættina á haustdögum, fer skipulagið til bæjarstjórnar sem samþykkir lögformlega auglýsingu þess í samræmi við 31. grein skipulagslaganna. Þá gefst öllum kostur á að skila inn athugasemdum, og er athugasemdafrestur 6 vikur frá því að auglýsingin birtist. Þegar frestur til athugasemda er liðinn skulu skipulagsráð og bæjarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Þegar öllu þessu er lokið fer skipulagstillagan á borð Skipulagsstofnunar sem birtir auglýsingu um hana í b-deild Stjórnartíðinda, og öðlast hún þá lögformlegt gildi. Þetta er langur vegur, og er ekki að vænta að öllu verði lokið fyrr en um eða eftir áramótin.

26. júlí 2017. Dr. Bjarki Jóhannesson, sviðsstjóri skipulagssviðs.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?