Á kafi í fullveldi í Sundlaug Akureyrar

Fullveldisfánar hafa nú þegar verið dregnir að húni við Sundlaug Akureyrar í tlefni af viðburðinum l…
Fullveldisfánar hafa nú þegar verið dregnir að húni við Sundlaug Akureyrar í tlefni af viðburðinum laugardaginn 20. október.

Á morgun, laugardaginn 20. október frá kl. 13-16, verður blásið til öðruvísi málþings í Sundlaug Akureyrar í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Viðburðurinn heitir „Á kafi í fullveldi" og þar kennir ýmissa grasa.

Á fullveldishátíðinni verður boðið upp á fjölmarga ólíka viðburði. Allir hafa þeir það að markmiði að bregða litríku og ólíku ljósi á hugtakið fullveldi. Viðburðunum er ætlað að höfða til breiðs aldurshóps. Fræðimenn flytja stutt framsöguerindi og stýra síðan umræðum. Rýmin eru mörg og margskonar og nýtt verða bæði laugar, pottar og þurrar vistarverur. Sundfatnaður verður því ekki algjört skilyrði fyrir þátttöku.

Tíu fræðimenn og kennarar frá Háskólanum á Akureyri stýra stuttum umræðufundum í heitu pottunum og spyrja spurninga á borð við: Er íslenskan fullvalda mál? Hvernig var stéttaskipting í upphafi fullvaldatímans? Hvað með fullveldi íþrótta eða fullveldi sveitarfélaga og fjölmiðla?

Skáldið Gerður Kristný les úr verkum sínum og það gerir sömuleiðis kynfræðingurinn Sigga Dögg. Listakonan Jonna fjallar um plastfjallið sem allt ætlar að gleypa og verður með gjörning í þeim anda á svæðinu.

Í kvennaklefanum verður fjallað á krefjandi hátt um fullveldi píkunnar og karlarnir láta heldur ekki sitt eftir liggja þegar þeir ræða ábyrgð pungsins í karlaklefanum.

Boðið verður upp á söngstund fyrir yngri kynslóðina í busllauginni og Amtsbókasafnið stýrir forvitnilegum og fjörugum sögustundum á sama stað.

Á milli atriða verða á dagskrá tónlistaratriði þar sem stíga á stokk systurnar Una og Eik, Ivan Mendes og Vandræðaskáldin flytja bálk sinn „Sullveldi".

Á kafi í fullveldi er hluti af dagskrá 100 ára fullveldisafmæli Íslands, styrkt af Fullveldissjóði og unnið í samstarfi við Akureyrarbæ, Sundlaug Akureyrar, Háskólann á Akureyri, Akureyrarstofu, Amtsbókasafnið á Akureyri og Aflið.

Enginn aðgangseyrir verður að sundlauginni þennan dag frá kl. 12.30-15.30 og boðið verður upp á kaffi og með því fyrir svanga hátíðargesti. Kynnir hátíðarinnar verður María Pálsdóttir.

Nánar um flytjendur erinda, tímasetningar og fleira.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan