5 á dag

Merkingar frá átakinu eru komnar á strætisvagna bæjarins.
Merkingar frá átakinu eru komnar á strætisvagna bæjarins.

Forvarna- og félagsmálafulltrúar Akureyrarbæjar hafa undanfarið unnið að nýju lýðheilsuverkefni sem er meðal annars kynnt með auglýsingum á strætisvögnum bæjarins. Verkefnið kallast "5 á dag".

Það snýst um að kynna fyrir almenningi 5 einföld skref til að fylgja á hverjum degi og þannig stuðla að betri líðan. Markmiðið er að hvetja alla til að taka ábyrgð á og stuðla að eigin geðheilsu.

Undanfarin misseri hefur talsvert verið rætt um að geðheilsa, sérstaklega á meðal barna og ungmenna, fari versnandi og að skortur sé á úrræðum í þeim málaflokki. 5 á dag er átak sem allir geta tileinkað sér í heilsueflandi samfélagi.

Skrefin eru í stuttu máli:

  1. Tölum saman: Átt þú í samskiptum við fólkið í kringum þig? Fjölskyldu, samstarfsmenn, nágranna, vini, heima, í vinnunni, skólanum, samfélaginu þínu?
  2. Verum virk: Stundar þú reglulega hreyfingu? Göngum, hjólum, syndum, skíðum, förum stigann, leikum okkur.
  3. Verum í núinu: Nýtur þú augnabliksins? Verum þakklát, verum meðvituð um umhverfi okkar, hugsanir okkar, tilfinningar og líkama okkar og heiminn í kringum okkur.
  4. Upplifum: Ferð þú út fyrir þægindarammann? Lærum allt lífið, upplifum eitthvað nýtt, setjum okkur markmið, látum drauma okkar rætast.
  5. Gefum af okkur: Ert þú þátttakandi í samfélaginu? Verum örlát, hrósum, gerum eitthvað fallegt fyrir ættingja, vini eða ókunnuga.

Verkefnið er styrkt af frístundaráði og SVA

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan