20 ára afmæli Stóru upplestrarkeppninnar

Sigurvegarar keppninnar í ár. Mynd: Þórarinn Torfason, kennari í Oddeyrarskóla.
Sigurvegarar keppninnar í ár. Mynd: Þórarinn Torfason, kennari í Oddeyrarskóla.

Í gær, miðvikudag, var Stóra upplestrarkeppnin haldin í tuttugasta sinn á Akureyri. Keppnin hefur nær alltaf farið fram í Kvosinni, sal Menntaskólans á Akureyri, og var engin undantekning á því í ár. Nemendur í 7. bekk í grunnskólum bæjarins taka þátt í lokahátíðinni, en áður hafa skólarnir haldið forkeppni og valið tvo fulltrúa auk varamanns. 

Að þessu sinni voru skáld keppninnar Birkir Blær Ingólfsson og Jón Jónsson úr Vör. Lesið var í þremur umferðum og í fyrstu umferð fluttu þátttakendur svipmyndir úr bók Birkis Blæs, Stormsker, í annarri umferð voru lesin ljóð eftir Jón úr Vör og í síðustu umferð valdi hver flytjandi sér ljóð til flutnings.

Að venju voru nemendur sér og skólum sínum til mikils sóma þennan dag og dómarar hafa ekki verið öfundsverðir af því hlutskipti að velja einn fremur öðrum í verðlaunasæti. Eins og áður var það Ingibjörg Einarsdóttir sem var formaður dómnefndar en hún er einn af upphafsmönnum keppninnar, sem fór fyrst fram í Hafnarfirði fyrir tuttugu og fjórum árum.

Sigurvegarar Stóru upplestrarkeppninnar 2020:
Sólon Sverrisson, Naustaskóla, 1. sæti
Hólmdís Rut Einarsdóttir, Lundarskóla, 2. sæti
Tinna Evudóttir, Glerárskóla, 3. sæti

Ómissandi þáttur hátíðarinnar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskólans á Akureyri. Að þessu sinni fengu gestir að hlusta á fiðlur og víólu, auk píanóleiks. Tónlistarflytjendum og kennurum þeirra eru færðar bestu þakkir fyrir allan þeirra undirbúning og æfingar sem skiluðu sér í vönduðum og góðum flutningi fyrir fullum sal áhorfenda.

Upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar er á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert, en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar áherslu á að æfa upplestur og vanda framburð og huga vel að áherslum, túlkun og framkomu í ræðustóli.

Hér eru nokkrar myndir sem Þórarinn Torfason, kennari í Oddeyrarskóla, tók í gær:

Þátttakendur í Stóru upplestrarkeppninni. Á myndina vantar Sigurgeir Bjarka Söruson og Emmu Arnarsdóttur. Ingibjörg Einarsdóttir, formaður dómnefndar, greinir frá úrslitum. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs, hélt utan um dagskrá. 

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri flutti ávarp Sigurvegarar keppninnar Þorlákur Axel Jónsson, varaformaður fræðsluráðs, flutti ávarp

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan