188 lið og öll sigra

Eitt glæsilegasta íþróttamót ársins, N1-mótið í knattspyrnu, hefst á Akureyri í dag, miðvikudaginn 4. júlí og lýkur laugardaginn 7. júlí. Íþróttamannvirki bæjarins, hús og vellir, eru sjaldan eins vel nýtt og eru forsenda þess að svo stór mót sé haldið hér í bæ með glæsibrag.

Þetta er í þrítugasta og annað skipti sem tæplega 2.000 ungir drengir flykkjast norður og etja kappi í vinsælustu íþróttagrein landsins á N1-mótinu, móti sem fyrir löngu hefur skrifað nafn sitt í knattspyrnusögubækur Íslands. Skráð lið í ár eru 188 og þátttakendur eru vel yfir 1.800. Kópavogsliðin tvö, Breiðablik og HK, eru fjölmennust í ár, en frá þeim koma 13 lið annars vegar og 12 lið hins vegar. Ljóst er að allir munu sigra í þessu móti með einum eða öðrum hætti, ekki síst þar sem órjúfanleg vinátta og ævilangar minningar um góðar stundir verða til á þessu móti.

Það er ekki á neinn hallað þegar því er haldið fram að N1 mótið sé hápunktur íþróttasumarsins fyrir unga knattspyrnukappa og á mótinu hafa margir verðandi atvinnumenn og landsliðsmenn sem nú öttu kappi á HM í Rússlandi, tekið sín fyrstu alvöru skref. Má reikna með að í ár taki landsliðsmenn framtíðarinnar þátt af sama eldhug og krafti og fyrri kynslóðir.

Sem fyrr fylgir mikill fjöldi aðstandenda, vina og þjálfara keppendum á mótið og má því reikna með þúsundum gesta til Akureyrar í kringum mótið. Skipuleggjendur minna því á þolinmæði meðan á mótinu stendur, hvort sem um er að ræða umferðarmál eða önnur mál sem óhjákvæmilega getað skapað töf.

Akureyrarbær óskar keppendum og aðstandendum góðrar skemmtunar á N1-mótinu.

Mynd af heimasíðu KA og N1-mótsins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan