Ný vatnsaflsvirkjun í Glerá

Frá undirritun samningsins. Andri Teitsson framkvæmdastjóri Fallorku og Eiríkur Björn Björgvinsson b…
Frá undirritun samningsins. Andri Teitsson framkvæmdastjóri Fallorku og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.

Bæjarstjórinn á Akureyri og framkvæmdastjóri Fallorku ehf. undirrituðu í dag samning um að Fallorka reisi og reki 3,3 MW vatnsaflsvirkjun í Glerá ofan bæjarins. Meginmarkmið með framkvæmdinni er að nýta endurnýjanlega náttúruauðlind til að framleiða raforku á hagstæðu verði fyrir viðskiptavini Fallorku sem eru að stórum hluta Akureyringar.

Um 5-6 metra há stífla og um 10.000 m² lón verða í rúmlega 300 m hæð yfir sjávarmáli skammt innan við vatnslindir Norðurorku á Glerárdal. Frá stíflunni verður um 5.800 metra löng fallpípa grafin niður norðan við ána og liggur niður í Réttarhvamm. Þar verður um 50 m² stöðvarhús. Raforka verður send inn á dreifikerfi Norðurorku um jarðstreng.

Akureyrarbær breytir aðalskipulagi og deiliskipulagi eins og þörf krefur vegna framkvæmdarinnar. Sá fyrirvari er settur að samþykki Skipulagsstofnunar fáist fyrir skipulagsbreytingum og að mögulega þurfi að laga áætlanir um fyrirkomulag og frágang að kröfum Skipulagsstofnunar.

Fallorka og Akureyrarbær vinna náið saman við að ákvarða endanlega staðsetningu og hönnun mannvirkja, svo sem staðsetningu og útlit á stöðvarhúsi, leið þrýstipípu, staðsetningu og útlit stíflu og göngubrúar, legu göngustígs og yfirborðsfrágang, fyrirkomulag á tengingu göngustígs við Hlíðarbraut o.fl. Fallorka greiðir kostnað vegna skipulagsvinnu sem snýr að virkjuninni og tengdum framkvæmdum.

Fallorka leggur göngu- og hjólastíg frá stöðvarhúsi í Réttarhvammi um 6 km eftir norðurbakka Glerár upp að nýju stíflunni. Stígurinn liggur að miklu leyti ofan á niðurgröfnu fallröri virkjunarinnar en víkur þó frá því á löngum köflum, aðallega til að fylgja ánni betur á móts við gilið. Stígurinn tengist göngustíg við Hlíðarbraut og Þingvallastræti með leið undir bílabrú á Hlíðarbraut. Gert er ráð fyrir að stígurinn liggi með Glerá austan við skotsvæði og tengist núverandi göngubrú sunnan þess. Ný göngubrú verður á stíflunni fram á Glerárdal sem opnar enn frekar aðgang að útivistarsvæðinu þar.


Loftmynd af stíflustæðinu og leið fallpípunnar meðfram Glerá niður að Réttarhvammi.

Akureyrarbær stefnir að því að ljúka breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna virkjunarinnar í maí 2014. Fallorka stefnir að því að virkjun verði gangsett í desember 2015, frágangi göngustígs verði lokið að mestu í september 2015 og hann verði nothæfur frá þeim tíma. Endanlegum frágangi á göngustíg og öðrum mannvirkjum ásamt umhverfi þeirra verði lokið í júní 2016.

Fallorka ehf. er að fullu í eigu Norðurorku hf. sem er aftur að 98,26% í eigu Akureyrarbæjar en 1,74% samtals í eigu fimm nágrannasveitarfélaga.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan