Þróunarverkefni

2023-2025 Stilla. Þróunarverkefni um hæglátt leikskólastarf.

Iðavöllur tekur nú þátt í þróunarverkefninu Stilla - hæglátt leikskólastarf. Verkefnið er þriggja ára verkefni og er leitt af Kristínu Dýrfjörð við HA og Önnu Magneu Hreinsdóttur við HÍ. Prófessor Alison Clark höfundur bókarinnar; Slow knowledge and the unhurried child, og prófessor Kari Carlsen við Sørøst Norge eru meðrannsakendur og þátttakendur í verkefninu.

2024-2026
Leiðsögn á vettvangi. Skipulag og inntak leiðsagnar nema og nýliða í leikskóla. Unnið í samvinnu við Birnu Svanbjörnsdóttur o.fl. við Háskólann á Akureyri

Stilla - Hæglátt leikskólastarf: Verkefnið gengur út á að skoða tíma, leik og menntun og samspil þessara þátta í leikskólanum. Meginmarkmiðið er að þróa hæglátt leikskólastarf sem gefur tíma og rúm til rannsóknarnáms í gegnum leik. Rannsóknin fer fram með starfendarannsóknum kennara og uppeldisfræðilegum skráningum á leik og námi barna. Með þessu dýpkar þekking okkar á því hvernig börn læra með því að gefa þeim tíma og næði til að ná flæði í námi sínu. Einnig lærum við betur á hvernig við sem fullorðin og kennarar getum hægt á okkur í erli dagsins, gefið okkur tíma til ígrundunar og þekkingar á eigin starfi og starfsháttum. Við dveljum í núinu ásamt því að rýna framtíðina, gefum okkur tíma til að fara á dýptina í leik og námi og ekki síst tíma til að ræða saman og læra af og með hvert öðru. Hér má lesa um verkefnið

Iðavöllur er þátttakandi ásamt leikskólunum Aðalþingi í Kópavogi, Rauðhóli í Reykjavík og Uglukletti í Borgarnesi.

Leiðsögn: Verkefnið gengur út á að þróa og skipuleggja innihald og framkvæmd leiðsagnar þegar tekið er á móti nemum og einnig nýju starfsfólki í leikskólann. Verkefnið leiðir Birna Svanbjörnsdóttir dósent ásamt fleirum við Háskólann á Akureyri. Í þróunarstarfinu hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á fyrirkomulagi í starfsnámi leikskólakennaranema ásamt því að móta betur hlutverk leiðsagnaraðila í skólunum.

Þróunarverkefni Iðavallar