Það blæs í Grímsey

Mynd: Anna María Sigvaldadóttir
Mynd: Anna María Sigvaldadóttir

Veður er slæmt víða um land og það blæs líka hressilega í Grímsey þar sem nú er býsna margt um manninn eða rúmlega 60 manns. Til stóð að fleiri kæmu í dag til að vera á þorrablóti heimamanna sem haldið verður á laugardaginn en vegna veðurs hefur öllu flugi verið aflýst.

Veðurhæð fór hæst í 32 m/sek í morgun og á líklega eftir að versna ef veðurspáin gengur eftir. Sjór gengur yfir vitann syðst á eyjunni og er ölduhæðin á bilinu 4 til 5 metrar. Eitt skip er í vari við eyjuna, Kristrún EA, og þrátt fyrir að veður eigi eftir að versna eitthvað þá verður sjaldan svakaleg ölduhæð í austan- eða suðaustanátt við Grímsey.

Grímseyingar taka þessu með stóískri ró og af mestu yfirvegun enda ýmsu vanir. Þeir treysta því að hægt verði að fljúga á morgun þegar hljómsveitin ætlar að fljúga út í eyju til að skemmta á árvissu þorrablótinu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan