Miðgarðakirkja

Miðgarðar er nyrsti kirkjustaður á Íslandi. Jón biskup Ögmundsson vígði kirkju í eyjunni snemma á elleftu öld. Var hún helguð Ólafi, þjóðardýrlingi Norðmanna, og skyldu þjóna við kirkjuna tveir prestar og syngja messu á hverjum degi en tvær messur á dag á sérstökum helgidögum. Síðan hefur dregið úr helgihaldi en þekkt eru nöfn 50 presta sem þar hafa þjónað. Eyjunni er nú þjónað af presti Dalvíkurprestakalls.

Miðgarðakirkja var reist árið 1867 úr rekaviði. Árni Hallgrímsson (1832-1917) frá Garðsá í Eyjafirði var yfirsmiður hennar. Kirkjunni var breytt umtalsvert árið 1932 þegar bætt var við einfalt kirkjuhúsið forkirkju með háum turni og kór. Til hafði staðið að steinsteypt kirkja leysti gömlu kirkjuna af hólmi. Guðjón Samúelsson lagði fram hugmyndir árið 1925 að nýrri kirkju og báru endurbæturnar sem ráðist var í talsverðan svip af þeirri tillögu. Helgi Ólafsson smiður og bóndi á Borgum í Grímsey sá um endurbæturnar og fórst afar vel úr hendi að fella saman gamla kirkjuhúsið og nýbyggingarnar. Kirkjan stóð þá nær Miðgarðabænum en var færð um lengd sína vegna eldhættu. Frekari framkvæmdir fóru fram á kirkjunni árið 1956 og var hún endurvígð 12. ágúst 1956 af Ásmundi Guðmundssyni biskupi.

Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði þjóðminjalaga.

Miðgarðakirkja brann til grunna 21. september 2021. Nokkrir góðir gripir glötuðust í eldinum: Predikunarstólinn frá 1867, altaristafla frá 1879 eftir Arngrím Gíslason málara, eftirmynd af kvöldmáltíðarmynd Leonardo da Vinci; fagurlega útskorinn skírnarfontur eftir Einar Einarsson frá 1958, og tvær fagrar söngtöflur eftir hann, svo fáeinir gripir séu tilteknir.

Nánari upplýsingar um kirkjuna má sjá á gardur.is.

Hér fyrir neðan má sjá fjölbreytt úrval mynda. Ef þið viljið deila myndum inn í albúmið er það vel þegið og má senda á info@visitakureyri.is. Gjarnan merkja myndirnar ljósmyndaranum.