Grímsey á servíettu

Símamynd af servíettunni.
Símamynd af servíettunni.

Til Grímseyjar komu í haust hjónin Lynnette og Paul Metz frá Wisconsin í Bandaríkjunum og höfðu með sér meriklega servíettu sem hafði farið víða. Á servíettuna var teiknað harla ónákvæmt kort af Íslandi og merktir inn á það nokkrir staðir sem þau þyrftu að heimsækja, þar á meðal voru Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Grímsey.

Forsaga málsins er sú að þau hjónin höfðu verið í heimsókn hjá dóttur sinni sem býr á Bretlandi og í þorpinu King's Cliff fór frúin að skoða kirkju staðarins og taka þar myndir eins og hún gerir gjarnan á ferðalögum sínum. Þar hitti hún mann sem vildi ólmur fá að segja henni af ferð sinni til Íslands og lýsa þeim dásemdum sem helst höfðu hrifið hann. Dró hann upp servíettu og teiknaði á hana landið og þá staði sem þau þyrftu að sjá.

Er skemmst frá því að segja að hjónin tóku manninn á orðinu, skelltu sér til Íslands og höfðu servíettuna sem sinn helsta leiðarvísi. Þau flugu frá Reykjavík beint til Grímseyjar með Norlandair og höfðu þar viðdvöl skamma stund. Ragnhildur Hjaltadóttir hitti hjónin, fékk hjá þeim söguna og tók nokkrar myndir.

 

 

 

 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan