Vorboði Grimseyjar

Mynd: María H. Tryggvadottir
Mynd: María H. Tryggvadottir

Lundinn er mættur heim að varpslóðum við Grímsey eftir vetrardvöl á hafi úti og boðar þar með vor við heimskautsbaug en í Grímsey er ein af stærstu lundabyggðum Íslands.

Alfreð Garðarsson ásamt tveimur öðrum sjómönnum á Þorleifi EA 88 voru á leið heim af veiðum fyrr í dag þegar þeir urðu varir við fyrsta lundann við eyjuna.

Mikill fjöldi fugla er nú þegar mættur í björgin og má þar meðal annars sjá fýl, ritu og svartfugl en til svartfugla teljast bæði lundi og langvía. Lundinn er á að giska 10 dögum fyrr á ferðinni en vant er en hann heldur sig enn sem komið er á sjónum. Hins vegar er langvían sest upp til að tryggja sér hreiðurstæði en hún mætti einnig með fyrra fallinu í ár.

Mikið hefur verið um að vera í Grímsey að undanförnu. Unnið er að undirbúningi að byggingu og fjáröflun fyrir nýja kirkju. Um helgina voru vinnufundir um skemmtiferðaskip og meðal annars unnið að leiðarvísi fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Áætlað er að 34 skemmtiferðaskip leggi leið sína til Grímseyjar næsta sumar.

Tilgangur vinnufundanna var að ræða áskoranir og tækifæri fyrir Grímsey sem áfangastað fyrir gesti skemmtiferðaskipa og setja saman grunn að leiðarvísi fyrir farþega sem koma í land. Að fundunum komu auk íbúa, aðilar frá Akureyrarhöfn, Akureyrarbæ, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Háskólanum á Hólum og Brothættum byggðum.

Vinnufundirnir voru haldnir í félagheimilinu Múla og var unnið út frá leiðarvísum sem AECO (alþjóðleg samtök minni skemmtiferðaskipa sem sigla um norðurslóðir) hafa gert fyrir nokkra áfangastaði skemmtiferðaskipa og er stefnt að því að klára þessa vinnu í vor fyrir Grímsey.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan