Sjósund við Grímsey

Svamlað í sjónum við heimskautsbaug.
Svamlað í sjónum við heimskautsbaug.

Árni Georgsson skellti sér í sjósund norður fyrir heimskautsbauginn í Grímsey með tengdaföður sínum fyrir skemmstu og var alsæll með upplifunina. "Sveinn tengdafaðir minn hafði áður synt í Suður-Íshafinu og því fannst honum gráupplagt að loka hringnum með því að synda líka í Norður-Íshafinu," sagði Árni í viðtali við Akureyri.is.

Þeir tengdafeðgar fóru gagngert til Grímseyjar með það í huga að synda í sjónum en þeir hafa stundað sjósund saman í nokkur ár. Þeim leist best á Bæjarvíkina við Grímsey til að skella sér í sjóinn norðan heimskautsbaugs og svömluðu þar um í stundarfjórðung í um 10 gráðu heitum sjónum. Veður var með besta móti og sólarglennur annað slagið.

"Við mælum hiklaust með Grímsey sem áfangastað fyrir áhugafólk um sjósund. Þetta var einstök upplifun á þessum magnaða stað á hjara veraldar," sagði Árni Georgsson.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan