Góður íbúafundur í Grímsey

Líflegur íbúafundur var haldinn í félagsheimilinu Múla í Grímsey í gær á vegum Akureyrarbæjar og SSNE. Um 20 íbúar mættu á fundinn, eða stór hluti þeirra sem voru í eyjunni.

Hátt í 14 milljóna króna styrkjum var úthlutað til 10 verkefna í tengslum við átakið Glæðum Grímsey á vegum Brothættra byggða. Um leið var sagt frá framgangi verkefna sem er ætlað að styðja við búsetu í eyjunni.

Áhugaverð umræða var um orkuskipti í Grímsey. Sigurður Ingi Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs, Guðmundur H. Sigurðarson framkvæmdastjóri Vistorku og Ragnar Ásmundsson verkefnastjóri hafa unnið að því að finna raunhæfar, hagkvæmar og spennandi leiðir til þess að framleiða raforku með öðrum og umhverfisvænni hætti en nú er gert og greindu þeir frá helstu niðurstöðum á fundinum.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri kynnti einnig helstu niðurstöður úr viðtölum sem tekin voru við alla íbúa á einkafundum í vetur um stöðu og framtíð Grímseyjar. Þar bar hæst eindreginn vilji heimamanna til þess að búa áfram í Grímsey og lögð áhersla á að hlúa vel að byggðinni.

Uppbyggilegar umræður sköpuðust um hin ýmsu mál. Jafnvel þótt verkefninu Glæðum Grímsey ljúki um áramótin þá mátti skynja áhuga á því að vinna áfram í anda brothættra byggða. Meðal annars var rætt um sértækar og ákveðnar aðgerðir sem gæti þurft að ráðast í og sagði bæjarstjóri frá viðræðum við ríkisvaldið um slík úrræði.

Fjallað var um íbúafundinn í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi og rætt við Ásthildi bæjarstjóra í beinni útsendingu. Hér má horfa á viðtalið.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan