Daniel Willard Fiske Minnst í Grímsey

Á morgun, þriðjudaginn 11. nóvember, verður haldið upp á fæðingardag velgjörðarmanns Grímseyinga, Bandaríkjamannsins Daniels Willards Fiske, en sá dagur er ávallt haldinn hátíðlegur í Grímsey.

Að þessu tilefni verður guðsþjónusta í Miðgarðakirkju í Grímsey þar sem Oddur Bjarni Þorkelsson og Magnús G. Gunnarsson sjá um helgihaldið. Að lokinni messu kl. 17.00 verður kaffisamsæti í félagsheimilinu Múla og börn úr grunnskóla Grímseyjar munu stíga á stokk og skemmta gestum með frumsömdu leikriti þar sem Fiske kemur við sögu. 

Saga Daniels Willards Fiske er um margt óvenjuleg en hann gerðist mikill velgjörðarmaður Grímseyinga á 19. öld þrátt fyrir að hafa aldrei komið til Grímseyjar, einungis siglt einu sinni í námunda við eyjuna. Sem ungur maður fékk Fiske mikinn áhuga á Íslandi og lærði íslensku í Kaupmannahöfn þar sem hann kynntist Íslendingum er hann var í námi í norrænum fræðum.

Til að heiðra minningu Fiske hafa Akureyrarstofa og Minjasafnið á Akureyri unnið að gerð söguskiltis um Fiske og er stefnt að því að setja það upp með vorinu við minnismerkið um Fiske í Grímsey. Menningarsjóður Eyþings styrkti gerð skiltisins.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu skiltisins sem er á lokastigi í vinnslu.

Hér er að finna frekari upplýsingar um Fiske.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan