Áætlun um að styrkja stöðu Grímseyjar

Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur skorað á innanríkisráðherra að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem snúa að samgöngumálum Grímseyinga og voru samþykktar af ríkisstjórninni í nóvember í fyrra. Þetta kemur fram í bókun ráðsins þann 15. september þegar ráðið fjallaði um stöðu málefna Grímseyjar og byggðaþróunarverkefnisins Brothættar byggðir.

Aðgerðaráætlunin sem starfshópur um vanda Grímseyjar lagði til við ríkisstjórn í nóvember í fyrra var fjórþætt. Styrkja átti stöðu útgerðar í Grímsey, bæta átti samgöngur við eynna, vinna átti hagkvæmnisathugun á lækkun húshitunarkostnaðar og Grímsey átti að komast inn í byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir.

Grímsey fékk inngöngu í Brothættar byggðir á síðasta ári og þar var haldið tveggja daga íbúaþing í byrjun maí sl. Unnið er að aðgerðaráætlun fyrir eynna samkvæmt verklýsingu verkefnisins og stefnt er að því að kynna hana fyrir íbúum í október. Verkefnið hlaut nafnið Glæðum Grímsey en það er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, EyÞings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Akureyrarkaupstaðar og íbúanna sjálfra.

Í vor tókst samkomulag um ráðstöfun sérstaks 400 tonna byggðakvóta til þriggja ára sem útgerðirnar fjórar í Grímsey skiptu á milli sín í samræmi við fyrirliggjandi aflaheimildir. Útgerð í Grímsey stendur engu að síður ekki jafn sterkum fótum og áður. Bæði hafa útgerðir þurft að selja frá sér aflaheimildir vegna skulda og svo er nýliðun í greininni líka mjög erfið.

Verið er að vinna að hagkvæmnisathugun á lækkun húshitunarkostnaðar í Grímsey og von er á niðurstöðunum hvað úr hverju. Þessi athugun er líka í raun forsenda þess að hægt verði að fara í frekari athugun á möguleikum þess að ráðast í sjálfbærari lausnir við orkuöflun og notkun í Grímsey. Grímsey er eina þéttbýlið á Íslandi sem kynnt er með olíu og er kostnaðurinn við það gríðarlega íþyngjandi fyrir íbúana.

Ein af þeim tillögum sem var samþykkt, var að með sérstakri fjárveitingu yrði ferðum Grímseyjarferjunnar fjölgað og að bætt yrði við flugferðum. Einnig var lagt upp með að koma á afslætti af bæði ferju- og flugfargjöldum fyrir íbúa Grímseyjar. Enn bólar ekkert á þessum aðgerðum.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu stefnir Vegagerðin að því að auglýsa útboð á ferjusiglingunum milli Dalvíkur og Grímseyjar á næstu vikum. Þar er lagt upp með einhverjar breytingar á fyrirkomulagi ferjusiglinganna en óljóst er að segja til um hverjar þær verða fyrr en að loknu útboði.

Samantekt frá íbúaþinginu sem haldið var í Grímsey í maí.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan