Að horfa á kvikmynd er góð skemmtun

Þótt besta veðrið sé alltaf á Akureyri, þá er það nú oft þannig að rigningin dregur úr áhuga til að fara út í göngutúr eða hjólaferð ... „Mér finnst rigningin góð“ söng Helgi Björnsson (eða Grafík öllu heldur). Þá er gott að geta gripið í góða kvikmynd!

Landslagið er dálítið breytt í þessum heimi kvikmyndanna. Streymisveitur ráða svo miklu og ekki öll heimili sem geta boðið upp á þær í öllum herbergjum. Þess vegna er töluvert um það að fólk komi enn og fái mynddiska lánaða, þar sem DVD spilarar finnast enn í þessum herbergjum. Og það er ákveðinn sjarmi í því að koma á safnið og skoða diskana!

Amtsbókasafnið á Akureyri er eini staðurinn á Akureyri þar sem hægt er að fá mynddiska lánaða í 7 daga. Útlánin eru ókeypis. Og nú á næstu dögum eru glænýjar myndir að koma inn til okkar. Verið því vakandi og fylgist með. Grípið með ykkur nokkra diska í sumarbústaðinn, njótið þess sem fjölskylda að horfa á kvikmynd saman ... ja, eða bara kúrið uppi í rúmi eða sófa og horfið á rómantíska kvikmynd eða Alien ... eða bara allt þar á milli.

Og spurning í lokin : Hvað heitir kvikmyndin sem Tom Cruise lék í og nokkrar senur voru myndaðar hér á Íslandi, t.d. í Hrossaborg? (hann átti víst að hafa gist í villu gegnt Akureyri ...)