Vetrafrí á Amtinu

Nóg verður um að vera á Amtsbókasafninu dagana 6.-9. mars, þegar vetrarfrí í grunnskólum Akureyrar stendur yfir. Ekki láta ykkur leiðast, komið heldur í fjörið á Amtsbókasafninu!

Kvikmyndasýning / Harry Potter og viskusteinninn
Miðvikudaginn 6. mars kl. 16:00 verður sýnd kvikmyndin Harry Potter og viskusteinninn í barnadeildinni. Sagan fjallar um galdrastrákinn Harry Potter sem býr hjá frænda sínum og frænku. Þegar Harry verður ellefu ára kemur galdrakarlinn Hagrid og fer með hann til Hogwart, skóla galdra og seiða. Athugið: ÍSLENSKT TAL

Sögustund og PERL
Fimmtudaginn 7. mars kl. 16:30 verður sögustund í barnadeild. Fríða barnabókavörður les barnabækur sem höfða til yngstu kynslóðarinnar og í framhaldinu verður boðið upp á PERL!

Spila-fössari í vetrarfríi
Föstudaginn 8. mars kl. 13:30-15:30 stendur áhugasömum til boða að spila hin ýmsu spil úr safneign Amtsbókasafnsins. Hrönn Björgvinsdóttir spilameistari verður á staðnum.

Til er fullt af allskonar borðspilum á Amtsbókasafninu sem hægt er að fá lánuð heim eða spila á staðnum. Það er t.d. góð aðstaða til spilamennsku inni á Orðkaffi sem staðsett er á 1. hæð safnsins. Auk þess verður búið að koma fyrir borðum í barnadeild þar sem hægt verður að spila hvenær sem er á afgreiðslutíma safnsins í vetrafríinu.

TEIKNUM SAMAN
Það er alltaf í boði að teikna í barnabókadeildinni. Fríða barnabókavörður er búin að prenta úr myndir sem hægt er að lita, en svo er einnig hægt að teikna frjálst. Látum hugan reika og teiknum saman.

KINECT LEIKJATÖLVA
Í barnabókadeildinni er Kinect leikjatölva þar sem vinsælt er að dansa og hreyfa sig.

BÚNINGAFJÖR
Í vetrarfríinu drögum við fram búningana okkar góðu svo ungir gestir geti brugðið sér í hin ýmsu gervi. Búningana er að finna í barnadeild safnsins.

FULLT AF SKEMMTILEGUM BÓKUM
Á Amtsbókasafninu er til ógrynni af bókum fyrir börn og fullorðna. Það getur verið notalegt að hlamma sér á grjónapoka og ferðast inn í heim bókanna.

SKOÐUM RAFBÓKASAFNIÐ
Til eru fullt af skemmtilegum bókum fyrir ungmenni á Rafbókasafninu! Það eina sem þarf til er gilt bókasafnsskírteini, snjalltæki eða tölvu og appið Libby eða Overdrive. Þá eru þér allir vegir færir á Rafbókasafninu. Svo er alltaf hægt að biðja um aðstoð á Amtsbókasafninu.

Bækur fyrir börn og unglinga á Rafbókasafninu, smellið hér:
https://rafbokasafnid.overdrive.com/collection/121143

Gerum veturinn skemmtilegan, sjáumst! :)

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan