Matreiðslubækur í tengslum við veganúar

Ert þú þátttakandi í veganúar? Á Amtsbókasafninu eru til ýmsar uppskriftabækur með vegan uppskriftum fyrir þá sem eru að fóta sig í hinu græna mataræði.

 

Vegan – 7 mínútur í eldhúsinu

Höfundur: Émilie Perrin 

Sífellt fleiri tileinka sér veganlífsstílinn og njóta þess að borða lúffenga og um leið holla rétti.
Flestum kemur á óvart hve auðvelt er að elda góða veganrétti. Þessi bók er sniðin að þeim sem hafa lítinn tíma til að elda en vilja borða góða veganrétti.

Nú verður eldað!

Góðborgarar

Höfundur: Nína Olsson 

Grænmetisborgari framtíðarinnar er hér kynntur til sögunnar.
Hann er ekki aðeins augnayndi heldur líka virkilega ljúffengur, girnilegur og ómótstæðilegur, meira að segja fyrir alæturnar.
Bragð og keimur frá öllum heimshornum. Einstakar uppskriftir að næringarríkum grænmetisborgurum, brauði, sósum og hnossgæti.

Hjálp, barnið mitt er grænmetisæta

Höfundur: Jón Yngvi Jóhannsson 

Matreiðslubók fyrir ráðvillta foreldra, vanafasta heimiliskokka, fátæka námsmenn og alla aðra sem ættu að borða meira grænmeti. Fjölskylduvænir grænmetisréttir fyrir byrjendur og lengra komna.

Grænmetisætum og grænkerum fjölgar stöðugt og allir hafa gott af að borða meira grænmeti. Þeir sem sjá um eldamennsku á heimilum standa þó oft á gati þegar þeir þurfa að reiða fram góðan og næringarríkan mat sem allir geta borðað. Jón Yngvi er listakokkur sem þekkir þetta af eigin raun og hefur nú tekið saman fjölmargar freistandi uppskriftir að ljúffengum grænmetisréttum.

  • Bollur og buff
  • Kássur og karrí
  • Bulsur og bygg
  • Fyllt grænmeti
  • Pasta
  • Brauð og bökur
  • Súpur og salöt
  • Mauk og sósur

Jón Yngvi Jóhannsson er bókmenntafræðingur og lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Sem ástríðufullur heimiliskokkur hefur hann glatt sístækkandi barnahóp, stórfjölskyldu og vini með ótal máltíðum undanfarinn aldarfjórðung.

Ómótstæðileg Ella

Höfundur: Ella Mills 

 Ella Mills er skærasta stjarna Bretlands á sviði matargerðar.

Ómótstæðileg Ella sló í gegn þegar hún kom út árið 2015 og hefur nú verið gefin út í 20 löndum. Einfaldar og ljúffengar jurtafæðisuppskriftir fyrir alla sem vilja góða orku og jafnan blóðsykur.

Líka fyrir þá sem eru vegan og með glúten- og mjólkuróþol. Engar öfgar, bara gleði.

Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar – vegan uppskriftir fyrir mannúðleg matargöt

Höfundar: Guðrún Sóley Gestsdóttir, Rut Sigurðardóttir 

 Húrra fyrir þér sem heldur á þessari bók, hvort sem þú ert vegan eða að hugleiða það, lest þessi orð og hugsar málið. Allt sem þarf er opinn hugur því þá er ímyndunaraflið eina takmörkunin í sælkeraævintýrinu sem er að hefjast.

Heill heimur opnaðist fyrir mér þegar ég varð vegan og ég trúði varla möguleikunum sem öll þessi hráefni bjóða upp á; kryddin, ferska grænmetið, baunirnar, ávextirnir, jurtirnar, hneturnar, fræin. Pastað! Pizzurnar! Hamborgararnir! Kökurnar, kruðeríið og sælgætið. Og sósurnar – maður lifandi, sósurnar!

Eldhús grænkerans

Höfundar: Hanna Hlíf Bjarnadóttir, Katrín Rut Bessadóttir og Rut Sigurðardóttir

Eldhús grænkerans inniheldur um 120 uppskriftir að ljúffengum grænmetisréttum fyrir öll tilefni.

Eldhús grænkerans er fyrsta íslenska matreiðslubók sinnar tegundar en réttirnir henta öllum og er tilvalin fyrir þau sem vilja meiri fjölbreytni í eldamennsku sinni og auka vægi grænmetisrétta á matarborði fjölskyldunnar.

Í bókinni er sérstakur kafli um veganhráefni fyrir þau sem eru græn í gegn og flesta réttina má gera vegan á einfaldan hátt. Að auki má finna fjölda góðra ráða um nýtingu og mikil áhersla er lögð á að bera virðingu fyrir hráefninu og gera mat úr því öllu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan