Ungskáld

Ritlistasmiðja Ungskálda 2019 verður haldin laugardaginn 2. nóvember í Verkmenntaskólanum á Akureyri og að þessu sinni eru leiðbeinendur rithöfundarnir Bryndís Björgvinsdóttir og Stefán Máni. Tilvalið fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára með áhuga á ritlist. Skráning er til og með 31. október.

Samhliða ritlistasmiðjunni er efnt til ritlistakeppni Ungskálda þar sem veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Skilyrði er þó að textinn sé á Íslensku. Tilvalið er fyrir áhugasama að taka þátt í ritlistasmiðjunni 2. nóvember en þó þurfa þeir sem senda inn verk í keppnina ekki að taka þátt í ritlistasmiðjunni eða öfugt. Lokaskil verka í ritlistakeppnina er 16. nóvember.

Nánari upplýsingar á Ungskald.is.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem gengur út á að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Verkefnið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Amtsbókasafninu, Akureyrarstofu, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri og Ungmennahúsinu í Rósenborg. Hægt er að senda nefndinni fyrirspurnir á ungskald@akureyri.is.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan