Sveppafræðsla

Sveppafræðsla á Amtsbókasafninu undir umsjón Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sveppafræðings, þriðjudaginn 13. ágúst kl. 17:00

Það rignir og svo spretta upp sveppir.

Venjulega fer lítið fyrir svepparíkinu þótt sveppirnir séu nánast alls staðar og alveg ótrúlega margir og fjölbreyttir. Á sumrin birtast svo stundum aldin sveppa og sýna að þar er líkami svepps ofan í jörðinni eða inni í einhverju sem sveppurinn er að brjóta niður.
Sveppir geta orðið til vandræða þegar þeir vaxa á nytjajurtum og eyðileggja uppskeru eða vaxa á dýrum og valda sjúkdómum.
Matsveppir af nokkrum tegundum eru ræktaðir í miklu magni víða um heim og villtum matsveppum má safna og nýta sem hráefni í matargerð.

Í skógum vinna sveppir sín verk ansi víða. Svepprótarsveppir tengjast rótum trjáa og sjá um að útvega þeim vatn og áburðarefni og fá í staðinn hluta af því kolefni sem tréð bindur úr loftinu. Svo eru aðrir sveppir sem brjóta niður dauðan við í skóginum og koma efnum úr honum aftur út í hringrás lífsins. Aðrir sjá um að brjóta niður dauð lauf eða lifa í jarðvegi og sjúga sér næringu úr honum. Stöku sveppir vaxa á skordýrum og lifa á kítíni meðan aðrir brjóta niður keratín, efnið í húð, ull, hári, hornum og klaufum.

En síðsumars eru það aldin ýmissa sveppa sem fanga athyglina þar sem form aldina, áferð og litur vekja athygli. Sagt verður frá því hvernig maður greinir sveppi og hattsveppir teknir sem dæmi.
Sýndar verða erlendar sveppagreiningarbækur, söfnunarbúnaður og skýrt hvernig maður safnar sér matsveppum og verkar þá fyrir neyslu og til frystingar og þurrkunar.

Verið öll hjartanlega velkomin!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan