Sigga Dögg les kynVeru

Sigga Dögg kynfræðingur mun fjalla um bókina kynVera á Amtsbókasafninu föstudaginn 19. október kl. 17:00. 

kynVera er glæný bók eftir Siggu Dögg. Bókin byggir á algengum spurningum úr kynfræðslu víðs vegar um landið. 

Frá höfundi:
kynVera er ástáróður til minna eigin unglingsára. Ég þráði svona bók þegar ég var yngri svo nú þegar ég er að verða miðaldra þá skrifaði ég hana loksins. Hún er að mörgu leyti saga mín og minna vina. Margt af því sem gerist í bókinni eru rykfallnar beinagrindur úr minni fortíð. Eins og samfarir í beinni, tilraunastarfsemi vinkvenna, samþykkissamningaviðræður og uppgötvun kynlífsins hjá Daða og Veru.

Ég hef unnið við kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins frá árinu 2010 og ég finn að það er æpandi þörf fyrir meiri umræðu um kynlíf, samskipti, samþykki og ástina frá bæjardyrum unglinga. Í þessari bók birtast því raunverulegar samræður og spurningar sem unglingar hafa spurt að í kynfræðslu en einnig hlutir sem ég upplifði sjálf sem unglingur. Sumar samræðnanna áttum við vinkonurnar orð fyrir orð, aðrar vildi ég óska að við hefðum átt. Ástin er flókin og allt annað en svarthvít, hún er bogin og óregluleg og uppátækjasöm og flækist enn frekar þegar kynlíf verður hluti af henni.

Þegar ég var unglingur voru bara til örfáar bækur sem fjölluðu eitthvað um kynlíf en engin þeirra hafði það að meginviðfangsefni sínu þrátt fyrir að kynlíf, líkaminn og ástin hafi verið næstum því það eina sem ég og vinkonur mínar og vinir pældum í. Því langaði mig að skrifa sögu þar sem kynlífi fengi að vera aðalmálið í hreinskilinni og einlægri umfjöllun.

Vera er á margan hátt ég, ég í dag og ég sem unglingur.

Foreldrar og ungmenni hjartanlega velkomin!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan