Ratleikurinn Úti er ævintýri hefst í Kjarnaskógi

Ratleikurinn Úti er ævintýri opnar á Alþjóðadegi læsis, 8. september.
Svo skemmtilega vill til að sá dagur er einnig Bókasafnsdagurinn og þema dagsins er ansi viðeigandi fyrir ratleikinn, eða lestur er bestur fyrir jörðina.

Víðs vegar um Kjarnaskóg eru sögupersónur úr barnabókum og ef þú fylgir vísbendingunum þá finnur þú þær allar.
Ratleikurinn hefst við upplýsingaskiltið við Kjarnatún og þar finnur þú fyrstu vísbendinguna.
Krakkar í þriðja og fjórða bekk grunnskólanna á Akureyri völdu sögupersónurnar, hönnuðu og smíðuðu á sumarlestrarnámskeiði Amtsbókasafnsins og Minjasafnsins, sumrin 2020 og 2021. Með börnunum unnu listamaðurinn Ólafur Sveinson, Hólmfríður Björk Pétursdóttir, barnabókavörður, og Ragna Gestsdóttir, safnfræðslufulltrúi á Minjasafninu. Þá komu unglingar úr vinnuskólanum og atvinnuátaki Akureyrarbæjar einnig að verkefninu.

Tilgangur ratleiksins er að hvetja til lestrar, en verkefnið sameinar lestur, barnamenningu, útivist, hreyfingu, listsköpun, náttúru- og menningarlæsi. Það er einnig hugsað til þess að auðga menningarlíf í bænum og hvetja bæjarbúa og gesti til að nýta útivistarmöguleikana innan bæjarmarkanna enn betur. Stefnt er að því að ratleikurinn verði í Kjarnaskógi til frambúðar og sögupersónurnar voru smíðaðar með það fyrir augum að endast lengi á þessu vinsæla útivistarsvæði. Öllum er heimilt að taka þátt. Til dæmis er upplagt fyrir fjölskyldur að leika sér saman í skóginum

Athugið að nauðsynlegt er að hafa meðferðis snjalltæki, því skanna þarf QR kóða til að fá næstu vísbendingar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan