Pastel ritröð: Kynning

Mynd: Hallgerður Hallgrímsdóttir
Mynd: Hallgerður Hallgrímsdóttir
Pastel ritröð býður upp á kyningu og spjall á Amtsbókasafninu fimmtudaginn 1. mars kl. 17:00. Allir hjartanlega velkomnir!

Fimm höfundar verða á staðnum. Það eru Vilhjálmur B. Bragason, Karólína Rós Ólafsdóttir, Þórgunnur Oddsdóttir, Hlynur Hallsson og Kristín Þóra Kjartansdóttir. 

Pastel ritröð hóf göngu sína sumarið 2017, en þá komu út verk eftir fimm höfunda. Fjögur í viðbót bættust við í febrúarmánuði 2018. Pastelritin eru því orðin níu talsins:

01 Margrét H. Blöndal: Mér finnst eins og ég sé. 
02 Þórgunnur Oddsdóttir: 10 listaverk sem ég guggnaði á að gera. 
03 Kristín Þóra Kjartansdóttir: Varmhagi. 
04 Megas: Geitungabúið mitt. Ekki er allt sem sýnist þótt sjáist. 
05 Hlynur Hallsson: Þúsund dagar. Dagur eitt til eitthundraðþrjátíuogátta. 
06 Bjarni Jónsson: Skýrsla um síðbúna rannsókn. 
07 Karólína Rós Ólafsdóttir: Hversdagar. 
08 Vilhjálmur B. Bragason: Ritsafn II. Fyrsta bók höfundar. 
09 Hallgerður Hallgrímsdóttir: Límkenndir dagar. 

Búið er að handsala samninga við fjóra höfunda í viðbót og koma verk þeirra út í ársbyrjun 2019: Samúel Lúkas Rademaker, Lilý Erla Adamsdóttir, Ragnhildur Jóhannsdóttir og Arnar Arngrímsson. Stefnt er að því að Pastelritin verði í það minnsta 25-30 talsins. 

Pastelritin eru bókverk og eru eingöngu gefin út í 100 númeruðum og árituðum eintökum. Þau verða ekki endurútgefin. Um er að ræða áður óbirt efni eftir höfunda úr ólíkum greinum skapandi geirans.

Útgefandi er menningarstaðurinn Flóra á Akureyri, en í útgáfunefnd sitja Hlynur Hallsson og Kristín Þóra Kjartansdóttir. Ritin eru hönnuð af Júlíu Runólfsdóttur hjá Studíó Holt í Reykjavík, í samvinnu við hvern höfund, en Júlía setur verkin einnig fyrir prent. Prentun fer fram í Ásprent á Akureyri.

Fyrirmyndir að Pastel ritröð eru Fundargerðir sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu, sem Flóru bárust að gjöf fyrir 2-3 árum, og voru þær sumar hverjar einmitt prentaðar hjá Prentverki Odds Björnssonar í þeim sama sal í Hafnarstræti 90 og Flóra er starfrækt nú. Líkt og fundargerðirnar eru Pastelritin einföld og nærri einfeldningsleg í útliti, en endurspegla að innihaldi þær fjölbreytilegu aðferðir í efnisnálgun og framsetningu, sem hverjum höfundi er lagið. Pastelritin eru vitnisburðir um og endurspeglanir á veruleika okkar og tilveru í samtímanum í texta- og myndmáli.

Verið velkomin!

 

Viðburður á Facebook

Pastel ritröð á Facebook

Amtsbókasafnið er á Facebook og Instagram

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan