Óskarsverðlaun og Amtsbókasafnið

Amtsbókasafnið á þegar mynddiska sem innihalda sigurvegara nýjustu Óskarsverðlaunanna og fleiri koma…
Amtsbókasafnið á þegar mynddiska sem innihalda sigurvegara nýjustu Óskarsverðlaunanna og fleiri koma væntanlega á næstu vikum.

Óskarsverðlaunin voru afhent í 94. sinn aðfararnótt mánudagsins 28. mars. Þetta eru ein stærstu og umdeildustu kvikmyndaverðlaunin í heiminum og því vert að fylgjast með þeim. Amtsbókasafnið hefur í gegnum tíðina reynt að eignast eins margar verðlaunamyndir og hægt er og þar eru Óskarsverðlaunin engin undantekning.

Eitt af því sem gerir Óskarinn svo sérstakan er aldurinn. Næstum 93 ára (16. maí) og enn í fullu fjöri! Og hátíðin um daginn sveik ekki hvað varðar fjörið! Þeir leikarar sem unnu styttuna eftirsóttu eru blanda af reyndum og minna reyndum einstaklingum. Will Smith vann sinn fyrsta Óskar fyrir hlutverk sitt í King Richard og Amtsbókasafnið hefur um 15 kvikmyndir í sínu safni sem hann leikur í. Jessica Chastain sem var frábær í They Eyes of Tammy Faye er skráð sem leikari í 10 kvikmyndum hjá okkur, Troy Kotsur (vann Óskarinn fyrir hlutverk sitt í CODA og sú mynd var einnig valin sú besta!) hefur verið leikandi í um tvo áratugi en við eigum ekki enn neina mynd með honum. Sama má segja um Ariana DeBose sem hefur verið leikandi í um áratug en hlaut Óskarinn fyrir hlutverk sitt í West Side Story sem Steven Spielberg leikstýrði. Rita Moreno úr frummyndinni hlaut einnig Óskarinn fyrir sama hlutverk og sú mynd er til hjá okkur!

Jane Campion var valin besti leikstjórinn fyrir The Power of the Dog og við eigum eina kvikmynd sem hún hefur leikstýrt. Kenneth Branagh sem fékk Óskarinn fyrir besta frumsamda handritið (Belfast) er okkur kunnur og er leikari, leikstjóri eða þulur í 12 kvikmyndum/þáttum sem finna má hjá okkur. Eflaust eru margir þeir sem unnu verðlaun í gær tengdir einhverjum kvikmyndum sem finna má í safni okkar. Vegna þess að skráningar á kvikmyndum eru ekki alltaf þær nákvæmustu þá er ekki til nákvæm tala yfir það, því miður, en algjörlega og örugglega mun meistari Hans Zimmer, kvikmyndatónskáld með meiru, eiga vinninginn því hann hefur samið tónlist við 60-70 kvikmyndir og þætti sem finna má í safninu okkar. Hann vann sinn annan Óskar um daginn fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Dune.

Mynd/plakat af kvikmyndinni Dune sem kom út árið 2021

Og talandi um þá kvikmynd, þá má segja að hún hafi verið ákveðinn sigurvegari hátíðarinnar þar sem hún fékk flest verðlaun eða sex talsins. Og viti menn ... auðvitað er þessi kvikmynd til hjá okkur! Önnur mynd, Cruella, er til hjá okkur en hún fékk Óskarsverðlaun fyrir bestu búningana þetta árið.

Mynd/plakat af kvikmyndinni Cruella sem kom út árið 2021

Við munum halda áfram að framlengja ævi kvikmyndadeildarinnar okkar með því að leita uppi verðlaunamyndir og vinsælar myndir, sem koma áfram út á DVD-formi. Þeim fer fækkandi en þið haldið áfram að vera okkur svo mikilvæg hér á safninu og það er aldrei að vita hvaða Óskarsverðlaunakvikmyndir eigi eftir að bætast í safnið á næstunni. Og eins og þið vitið ... þá eru útlán á mynddiskum svo skemmtilega ókeypis. Sjáumst hress á Amtinu og munið: Að horfa á kvikmynd er góð skemmtun!

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan