Lóan er komin að ...

Lóan leit í heimsókn ... hún er að vinna í þessu með snjóinn!
Lóan leit í heimsókn ... hún er að vinna í þessu með snjóinn!

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vaka og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót.
(erlent lag - texti: Páll Ólafsson)

 

 

Veðrið er alltaf best hér á Akureyri og við gleðjumst yfir þeirri 'staðreynd'. Lóan mætti nú í morgun og athugaði með ýmislegt lesefni. Fréttir um komu hennar til landsins bárust okkur seint í mars. Hún hefur sungið eitthvað fyrir okkur Akureyringa en eftir að við vöknuðum öll í morgun, þá ákvað hún að láta til sín taka. Og hvergi er betra að byrja en á Amtsbókasafninu. Vel var tekið á móti henni og myndasyrpan hér að neðan sýnir ykkur það.

Mynd af lóustyttu í snjó fyrir framan bókasafn Mynd af lóustyttu fyrir framan bókasafn

Mynd af lóustyttu í snjó fyrir framan bókasafn Barnabókavörður sýnir lóustyttu barnabók

Bókavörður að aðstoða lóustyttu við sjálfsafgreiðsluvél Lóustytta á borði með stólum í kring

Lóustytta á útstillingarborði fyrir bækur með köttum og hundum framan á kápunni Mynd af lóustyttu við Íslenska fuglavísirinn

Annars er gott að minnast á að úrval Amtsbókasafnsins af fuglabókum er ágætt, einnig má fræðast um snjókomu og veðurfar í nokkrum bókum. Svo er myndin Furðufuglar til í barnadeildinni hjá okkur.

Að öllu gamni slepptu, þá látum við ekki einhver örfá snjókorn stoppa okkur í því að bjóða upp á skemmtilegt efni til útláns, viðburði til að koma á og klúbba til að stunda. Við sjáumst hress á Amtsbókasafninu, sem er opið alla virka daga 8:15-19:00 og fram til 15. maí er opið á laugardögum 11:00-16:00. 

p.s.
Bókin Snjóblinda er nokkuð vinsæl ... viljiði fá hana í útlán?

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan