Kaffikviss: Hversu vel þekkir þú Guðrúnu frá Lundi?

Guðrún sækir efnivið sinn í sveitalífið. Bækur hennar eru þjóðlegar skemmtibókmenntir en um leið rau…
Guðrún sækir efnivið sinn í sveitalífið. Bækur hennar eru þjóðlegar skemmtibókmenntir en um leið raunsæjar og henni þykir takast einstaklega vel að lýsa hversdagslífi og daglegu amstri.

Hversu vel þekkir þú Guðrúnu frá Lundi?

Föstudaginn 8. júní kl. 14:00 opnar sýningin Kona á skjön í sýningarrými Amtbókasafnsins. Við opnun munu sýningarhöfundarnir Marín Guðrún Hrafnsdóttir, bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar og Kristín Sigurrós Einarsdóttir, kennari og leiðsögumaður segja nokkur orð og að því loknu mun Marín stýra spurningakeppni eða kaffikvissi þar sem spurt verður úr Dalalífi, höfuðverki Guðrúnar frá Lundi. 

Kaffikvissið er hugsað til gamans og eru spurningar laufléttar fyrir þá sem hafa lesið Dalalíf. Fyrir lengra komna er hugsanlegt að spurningar úr öðrum verkum höfundar slæðist með, sérílagi ef skera þarf úr með sigurlið. 

Spurningakeppnin er öllum opin og um að gera að mæta og taka þátt enda um léttar og skemmtilegar spurningar að ræða fyrir þá sem þekkja vel til verka Guðrúnar eða sem eru nýbúnir að lesa Dalalíf. 

Hér er upphitunarspurning fyrir forvitna: Ófáum Hrútdælingum er fylgt til grafar, og eins er efnt til þónokkurra brúðkaupa. En hvað hét hinn annálaði ræðumaður, prestur Hrútdælinga? 

Heitt á könnunni og léttar veitingar. Verið velkomin!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan