Hvað ertu að búa til?

Brynhildur með nokkrar bækur í fanginu (bækurnar sjást betur á myndinni neðst í viðtalinu)
Brynhildur með nokkrar bækur í fanginu (bækurnar sjást betur á myndinni neðst í viðtalinu)

Brynhildur Þórarinsdóttir er með þekktari rithöfundum landsins. Hún er kennari við Háskólann á Akureyri, hefur sinnt margs konar fræðistörfum í gegnum tíðina og menntakerfið og lestur barna eru henni mjög hugleikin.
     Hún var svo góð að setjast niður í rafrænt samtal við ritstjóra heimasíðu Amtsbókasafnsins og leyfa lesendum að kynnast henni betur. Hún segist meðal annars vera brúarsmiður og útskýrir fyrir okkur hvað lestrahestamennska er. Stúdentaráð Háskóla Íslands kemur upp, stórkostlegt kvennalandslið okkar í knattspyrnu, leikritagerð, bókmenntaverkfræði, Grettir Ásmundarson og svo margt fleira.

 

Komdu nú sæl og blessuð, Brynhildur. Takk fyrir að taka þátt í þessu heimasíðuviðtali. Við byrjum bara á þessum klassísku atriðum: Hvert er nafn, gælunafn, aldur, starfsheiti og fjölskylduhagir?
Brynhildur Þórarinsdóttir, oft kölluð Bryn. Fædd 1970 en samt bara 49 ára því ég á enn eftir að halda upp á fimmtugsafmælið sem covid hafði af mér. Rithöfundur og háskólakennari, formlegt starfsheiti er dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Við erum sjö í heimili á Hamarstígnum: eiginmaðurinn er Þóroddur Bjarnason prófessor, Þorbjörg var að klára annað ár í MA, Þórarinn var að klára 8. bekk í Brekkuskóla og Anna Kristín 7. bekk, en læðurnar Mía og Mómó eru ekki byrjaðar í skóla. Bónusbörnin Valgerður og Bjarni eru orðin fullorðin og yngstur er ömmustrákurinn Arnaldur Sigursteinn Bjarnason, eins árs.

Fyrirsögnin á viðtalinu er „Hvað ertu að búa til?“ Þetta er bein tilvísun í bókina Nonni og Selma: fjör í fríinu sem kom út árið 2008. En um að gera að beina spurningunni til þín. Þannig að ... hvað ertu að búa til?
Ég var að senda frá mér lokagerð af Dularfulla hjólahvarfinu sem kemur út síðsumars. Bókin er sjálfstætt framhald af Dularfulla símahvarfinu og verður, eins og hún, hluti af Ljósaseríu Bókabeitunnar fyrir litla lestrarhesta. Söguhetjurnar þurfa aftur að taka til sinna ráða og leysa ráðgátu í hverfinu sínu. Svo hef ég verið að lesa inn hljóðbækur í vetur, þær nýjustu, Leyndardómur ljónsins og Blávatnsormurinn, voru að koma út hjá Forlaginu og inn á Storytel.

Nú ertu það sem ég myndi segja „alt muligt“-manneskja, þú getur ansi margt. En vissir þú strax í æsku hvað þú vildir verða? Eða stefndirðu í aðra átt og svo breyttist eitthvað?
Kannski vissi ég það innst inni, ég hef skrifað sögur frá því ég lærði að lesa, fjögurra ára. Ég tók þetta samt aldrei alvarlega, var aldrei skólaskáld en samdi oft gamansögur um atburði í fjölskyldunni og vinahópnum þegar ég var unglingur. Svo fór ég óttalega krókaleið að því að gera skapandi skrif að atvinnu. Var í eðlisfræðideild og tók viðskiptafræðival í MR, prófaði arkitektúrnám í Þýskalandi en rataði svo rétta leið með viðkomu í útvarpi og blaðamennsku. Ég man eftir að hafa svarað „kennari“ einhvern tímann sem krakki þegar spurt var hvað ég ætlaði að verða. Kennslan er því heldur ekki óvæntur starfsferill. En allt í einu er ég komin með 18 ára reynslu af háskólakennslu, það sá ég ekki fyrir.

Er eitthvað eitt sköpunarverk þitt umfram annað sem þér þykir vænst um? (persóna eða bók)
Mynd af rithöfundinum Brynhildi Þórarinsdóttur við áritun í útgáfuboðiÉg held ég segi Ungfrú fótbolti sem kom út 2019, bæði því efnið stendur mér nærri og ferlið var langt og snúið. Í þessari bók fléttaði ég saman baráttu fótboltastelpna fyrir viðurkenningu og kosningabaráttu Vigdísar Finnbogadóttur 1980. Ég byggði að vissu leyti á eigin reynslu þótt persónurnar væru allar skáldaðar, við stelpurnar sem vildum æfa og keppa sáum Vigdísi skora karlana á hólm og sigra þá. Framganga Vigdísar var okkur mikil hvatning á tímum þegar stelpur þóttu ekki vera á heimavelli í boltanum – né í landsmálunum. Ég gekk lengi með hugmyndina að þessari bók í kollinum og gerði margar atrennur að því að skrifa hana. Ég var líka mjög ánægð með hana þegar upp var staðið og finnst hún eiga erindi. Það gladdi mig líka mjög að fá einlæg bréf frá stelpum sem tengdu við söguhetjuna. Nú er íslenska kvennalandsliðið að keppa í úrslitakeppni Evrópumótsins sem er magnað, þvílíkt lið sem við eigum, en gleymum ekki sögunni, það er furðu stutt síðan stelpur fengu ekki að æfa fótbolta og enn styttra síðan kvennalið voru lögð niður, meira að segja landsliðið, í sparnaðarskyni. Ég vildi skrifa bók sem héldi þessari sögu á lofti en blési ungum lesendum um leið baráttuanda í hug, hvort sem það væri á vellinum eða í jafnréttismálunum.

Þú ert stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, B.A. og M.A. frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri. Er meira nám á döfinni eða er kennslan/fræðistörf tekin alveg við?
Góð spurning, það er kannski kominn tími til að læra eitthvað nýtt? Tími háskólakennarans fer í kennslu og rannsóknir og ritstörfin mæta gjarnan afgangi. Allt er þetta þó tengt, í bæði rannsóknum og kennslu fæst ég við lestrarvenjur og lestraráhuga barna og unglinga. Ég finn hvernig lestrarvenjur breytast og hvernig gjáin milli nemenda og námsefnis breikkar. Ég gæti alveg hugsað mér að fikra mig meira út í annara konar miðlun til ungra lesenda til að kveikja áhuga þeirra á lestri og sögum. Ég hef verið að taka upp hljóðbækur og það er áhugavert að sjá hvernig nýtt form nær að endurvekja eldri bækur. Mér finnst stafræn menningarmiðlun mjög heillandi, sögur á margvíslegu formi, bæði skáldaðar og sagnfræðilegar. Einhvern tímann fer ég kannski í tækni- eða listnám til að takast á við þetta en fyrst þarf ég að læra á gönguskíði og að spila golf.

Þú varst framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands á sínum tíma (1994). Í viðtali sem birtist í Tímanum 6. október 1994 sagðirðu að starfið væri gríðarlega umfangsmikið, sérstaklega með tilliti til þess að sótt væri að menntakerfi landsins af hálfu hins opinbera. Hvað finnst þér hafa breyst í dag á þessum vettvangi, miðað við stöðuna fyrir tæpum 28 árum síðan?
Mynd af Brynhildi Þórarinsdóttur á 9. áratug síðustu aldar, með sítt að aftan og að sparka í boltaVá, þetta er umfangsmikil spurning sem kallar á talsverða upprifjun. Það var tvennt sem við börðumst fyrir, við vildum hærra framlag til menntamála, ekki síst háskólans, og við vildum koma í veg fyrir fyrirhugaðar breytingar á Lánasjóðnum en ætlunin var að setja vexti á námslán og þyngja endurgreiðslur. Í raun var þetta einn og sami slagurinn um aðgengi að menntun, við vildum opinn háskóla án skólagjalda og sanngjarnt námslánakerfi. Bæði skert framlög og breytingar á Lánasjóðnum stríddu gegn hugmyndinni um jafnrétti til náms. Á sama tíma vorum við með söfnunarátak í gangi sem kallaðist Þjóðarátak stúdenta. Verið var að leggja lokahönd á Þjóðarbókhlöðuna en þar, eins og stundum gerist, reyndust umbúðirnar hafa fengið meira vægi en innihaldið. Það vantaði bækur og ekki síður fræðitímarit í þetta nýja háskólabókasafn. Þetta var kosningavetur og Stúdentaráð nýtti tækifærið til að herja á þingmenn og frambjóðendur, við vorum mjög baráttuglöð og unnum dag og nótt við að skipuleggja áróðursstríðið.
     Þetta var svakalega skemmtilegur og lærdómsríkur tími. En hvað hefur breyst? Háskólaumhverfið er gjörbreytt, fleiri háskólar, fleiri tækifæri fyrir fjölbreyttari nemendahóp. En það er eins og menntakerfið losni aldrei úr umsátursástandi. Menntakerfið varð fyrir afar þungu höggi þegar fjórða árið var skorið af framhaldsskólunum og við sem tökum við stúdentum finnum að þeir hafa ekki jafn sterkan grunn og áður í lykilfögum eins og íslensku, sögu og stærðfræði. Það kemur ekki síður niður á þeim að hafa haft styttri tíma fyrir alls kyns félagsstörf sem þroska fólk og þjálfa í lýðræðislegri þátttöku. Styttingin var arfavond ákvörðun. Lánasjóðsmálin eru enn snúin, ég finn að nemendur forðast námslán sem er mjög miður. Fólk vinnur allt of mikið með náminu og gefur því ekki þann tíma sem þarf. Nám á ekki að vera aukavinna. Við tókum þennan slag um framfærslu og greiðslubyrði fyrir 28 árum og aðrir á undan okkur og enn fleiri á eftir okkur en samt erum við í þessum sporum núna. Nám er fjárfesting fyrir einstaklingana og þjóðfélagið og fólk verður að hafa kost – og vilja – til að forgangsraða tíma sínum til að mennta sig.

Fyrst kom Njála fyrir börnin, svo Egla og Laxdæla. Margét Laxness myndskreytti. Átta og níu árum síðar komu út Egils saga og Brennu-Njáls saga, sem var í tveimur hlutum. Halldór Baldursson myndskreytti þær. – Hafa vinir mínir Gísli Súrsson og Víga-Skúta einhvern möguleika á endursögn frá þér?
Ég játa að Víga-Skúta er ekki á hraðferð inn í nútímann en bæði Gísli og Grettir hafa óskað eftir bók um sig. Ég sé til hvort ég finn tíma í að sinna þeim. Grettir er reyndar svo frekur að það er aldrei að vita nema hann hafi sitt í gegn.

Og talandi um myndskreytingar, hvað ræður því að þessi ákveðna manneskja er valin í verkefnið hverju sinni? (Anna Cynthia Leplar, Þórey Mjallhvít, Sigurjón Jóhannsson, Bergrún Íris Sævarsdóttir, Elín Elísabet Einarsdóttir, Helgi Þórsson, Margrét og Halldór)
Stundum leiðir ritstjóri fólk saman, stundum langar textahöfund að vinna með ákveðnum myndhöfundi. Þetta er eiginlega misjafnt eftir bókum og tengist bæði efni bókanna og hvaða teiknistíl maður sækist eftir. Margrét Laxness hafði sjálf verið að pæla í Íslendingasögunum þegar Sigþrúður Gunnarsdóttir ritstjóri hjá Máli og menningu tengdi okkur saman. Afmælisnefnd um Jón Sigurðsson leiddi okkur Sigurjón Jóhannsson saman við gerð sýningar og bókar um Jón Sigurðsson 2011. Helgi Þórsson í Kristnesi gerði myndirnar í Gásagátuna því ég vissi að hann væri bæði teiknari og miðaldamaður. Minjasafnið á Akureyri stuðlaði að útgáfu bókarinnar og okkur fannst gaman að fá norðlenskan teiknara í verkið. Bergrún Íris gerði myndirnar í Blávatnsorminn 2012, þegar hún var að byrja sinn flotta feril, og við höfðum talað um að vinna aftur saman. Mér fannst því tilvalið að biðja hana um að teikna í Gulbrand Snata og nammisjúku njósnarana 2017. Elín Elísabet teiknar í bækurnar mínar hjá Bókabeitunni, það er hraði og húmor í myndunum hennar sem hentar vel fyrir þessar sögur.

Vefurinn islendingasogur.is er fjölskyldu- og kennsluvænn fræðsluvefur um miðaldabókmenntir. Þú skrifaðir líka sagátuna sem gerist sumarið 1222, ásamt auðvitað endursögnunum þínum sem vefurinn byggir á. Er þessi tími þér hugleikinn sérstaklega?
Já heldur betur. Ég er með MA próf í íslenskum miðaldabókmenntum og strax í náminu var ég farin að hugsa um hvernig hægt væri að kynda undir áhuga á þessu efni. Mér finnst magnað að við skulum eiga 800 ára gamlar sögur sem gefa okkur innsýn í horfið samfélag. Ég er líka á því að bókmenntir, hvort sem það eru endursagnir eða sögulegar skáldsögur, séu besta leiðin til að miðla og auka skilning á sögunni.

Mynd af Brynhildi Þórarinsdóttur fyrir framan gula útidyrahurð á Hamarstíg með bókina Fábrot í höndunumbrot : örleikrit fyrir örfáa leikara var gefin út í Pastel-ritröðinni árið 2019. Er leikritagerð eitthvað sem þú gætir hugsað þér meira af í framtíðinni?
Ég naut þess að skrifa örleikritin, fannst þetta tilvalið form fyrir ofurraunsæjar sviðsetningar úr akureyrskum hvunndegi. Pastel ritröðin hjá Flóru er svo frábær, fallegar bækur og fjölbreyttar og gaman að hafa fengið að vera með. Spurningunni um fleiri leikrit ætla ég að svara játandi og setja þar með pressu á sjálfa mig að skrifa fjölskylduleikritið Katteyri sem varð til í bílferð milli Reykjavíkur og Akureyrar um daginn.

Myndbandasamkeppnin Siljan er ótrúlega flott fyrirbæri sem vakið hefur athygli. Barnabókasetrið stendur fyrir keppninni og þú ert stjórnarformaður þess. Geturðu sagt frá tilurð keppninnar í stuttu máli og hvort þetta sé ekki nauðsynlegur vettvangur til að viðhalda og auka lestraráhuga barna og ungmenna?
Siljan varð til skólaárið 2014–2015 sem viðbrögð við minnkandi lestraráhuga barna- og unglinga. Rannsóknir höfðu sýnt að krakkar læsu minna en áður, bæði hefði stórlesendum fækkað og fjölgað í hópi þeirra sem aldrei opnuðu bók utan skóla. Rannsóknir sýndu líka að hnignandi árangur í lesskilningi, sem stöðugt var rætt um í tengslum við PISA prófin, tengdist minnkandi lestraráhuga og almennt neikvæðum viðhorfum til lestrar. Við í Barnabókasetrinu vildum nálgast lestrarvandann á uppbyggjandi hátt og fannst nóg komið af því að skamma unglingana opinberlega fyrir „að lesa sér ekki til gagns“. Við vildum bjóða upp á skemmtilegt verkefni sem efldi lestraráhuga og jákvæðni í garð bóka. Myndbandaleiðin varð fyrir valinu því okkur fannst vænlegra að tengja saman lestur og tækni í stað þess að fárast yfir hangsi í tölvu eða síma. Myndbandasamkeppninni Siljunni er ætlað að hvetja börn og unglinga til lestrar og skapa lestrarfyrirmyndir í skólunum. Um leið beinum við sjónum skólasamfélagsins að barna- og ungmennabókum og möguleikum þeirra í skapandi skólastarfi. Svo má ekki gleyma skólasöfnunum, frá upphafi hafa aðalverðlaunin í Siljunni verið 100 þúsund króna bókaúttekt fyrir skólasafn sigurvegaranna, enda gegna skólasöfnin lykilhlutverki í að efla lestraráhuga og þau verða að hafa spennandi bókakost. Sijan hefur nú verið haldin sjö sinnum og um 800 nemendur í 5.–10. bekk hafa tekið þátt. Hún hefur verið styrkt af Menntamálaráðuneytinu síðustu ár sem hlýtur að teljast viðurkenning á mikilvægi hennar. Þá er Borgarbókasafnið gengið til liðs við Siljuna og margt spennandi að verða til í því samstarfi kringum keppnina.

Barnabókasetrið var stofnað árið 2012 sem viðbrögð við minnkandi bóklestri barna. Þegar slíkar aðgerðir bera ávöxt, finnst þér samt ekki eðlilegt að halda „baráttunni“ áfram?
Það þarf stöðugt að halda lestri og bókum að börnum. Samkeppnin um tíma og athygli barna er hörð og lesturinn þarf að eiga PR-fulltrúa víða í samfélaginu. En það má gjarnan fjölga í pepp-liðinu, stöðugar upphrópanir um ólæs börn, einkum drengi, hafa mótandi áhrif á sjálfsmynd barna sem lesenda. Þær geta hreinlega kynt undir neikvæðni í garð lestrar og uppgjöf gagnvart bókum. Svo þarf líka stanslaust að gefa út og dreifa góðum bókum til barna. Ég er hætt að reyna að fylla Þjóðarbókhlöðuna, nú þarf að huga að grunninum og fylla hillur skólasafnanna. Við þurfum að gera miklu betur í að halda nýju og spennandi lesefni að grunnskólanemendum. Það kostar að ala upp lesendur, hvað sveitarstjórnarfólk athugi. Framlög til skólasafna eru afar misjöfn og stuðningur við lestraruppeldi ekki alls staðar vís.

Þóroddur Bjarnason eiginmaður þinn þýddi endursögn þína á Njálu yfir á ensku og svo vinnið þið bæði í Háskólanum á Akureyri – er þetta besti samstarfsmaðurinn þinn?
Við vinnum ýmislegt saman þótt við séum ekki á sama sviði, annars vegar í bókmenntum og hins vegar byggðamálum, eða kennaramenntun og félagsfræði. Við prófum hugmyndir við eldhúsborðið og höfum svo skrifað nokkrar fræðigreinar saman, sú nýjasta er um byggðaþróun í íslenskum bíómyndum. Íslenska erkiþorpið með græna fortíðareldhúsinu birtist ansi víða. Einhvern tímann skrifuðum við líka glæpasmásögu saman, Ríkisstjórnin sem sprakk, sem varð til í bíl milli Akureyrar og Reykjavíkur. Við keyrum býsna oft á milli landshluta og það gefur góðan tíma til að plotta. Þóroddur er reyndar við Háskóla Íslands núna en það breytir ekki miklu fyrir þennan fjölskylduiðnað, kallar bara á fleiri ferðir.

Þú hefur fengið nokkrar viðurkenningar og verðlaun fyrir verk þín. Finnurðu fyrir meiri pressu þegar þú hlýtur þau eða hjálpar þetta þér við að halda áfram á sömu braut?
Viðurkenningar og verðlaun eru frábær, þau hvetja mann til dáða. En það sem hvetur barnabókahöfund mest áfram eru góð viðbrögð krakka við því sem maður skrifar. Börn eru líka svo skemmtilega hugmyndaríkir ritdómarar, eins og sést best á Storytel, þar sem þau strá tilfinningaríkum upphrópunum og litskrúðugum tjáknum við bækurnar.

Eru ein verðlaun eða viðurkenning mikilvægari en önnur hjá þér? Eða þykir þér jafn vænt um þau öll?
Það var sérstaklega gaman að fá Norrænu barnabókaverðlaunin 2007 fyrir endursagnir á Íslendingasögunum. Verðlaunin voru afhent í Danmörku í voða fínni veislu sem ég gat reyndar lítið notið því ég var ólétt og hræðilega óglatt allan tímann.

Hvaða ráð hefur þú handa krökkum (og fullorðnum) sem líta upp til þín og eiga sér ritlistardrauma?
Lesa, lesa og lesa. Það skrifar enginn góðan texta án þess að vera víðlesinn. Vera forvitin og eftirtektarsöm. Taka eftir umhverfinu, manneskjum, fréttum og sögusögnum, öllu sem getur gefið hugmynd að persónum eða söguþræði. Og svo að láta vaða. Skrifa, skrifa og skrifa. Engin saga rennur fullkomin á blaðið, það þarf að gefa sér tíma til að endurskrifa, breyta og bæta.

Þú hefur eitthvað unnið í fjölmiðlum (t.d. Þjóðbrautin á Bylgjunni). Gætirðu sagt okkur eitthvað frá því og finnst þér það gefandi vinna?
Það var ferlega gaman að vinna í útvarpi, Þjóðbrautin var dægurmálaþáttur í beinni útsendingu, tvo tíma á dag svo við unnum hratt og þurftum að vera inni í öllum málum. Við vorum líka talsvert á flakki, tókum upp útí bæ og klipptum. Það gat verið stress en líka stuð að vera í útsendingu en stundum var erfitt að kæfa hláturskast yfir mistökum. Á tímabili vorum við þrjú með þátttinn, auk mín þau Snorri Már Skúlason og Guðrún Gunnarsdóttir sem bæði eru mjög hláturmild. Eitt sinn kynnti Guðrún pistlahöfund þáttarins, Hallgrím Helgason, með þeim orðum að nú ætlaði hann að fjalla um piss. Við þurftum að setja „Bohemian Rhapsody“ á til að ná andanum, 6 mínútna lag. Þá hafði Snorri skrifað kynninguna og stytt orðið pistill svona óheppilega: Hallgrímur Helgason pis. Þetta var frábær reynsla sem ég finn hvað kemur sér vel núna þegar ég er að lesa inn og klippa hljóðbækur.
     Það var ekki síður skemmtilegt og lærdómsríkt að ritstýra Vinnunni hjá Alþýðusambandi Íslands sem kom þá út mánaðarlega í dagblaðsbroti. Það var hressandi að hella sér í verkalýðsbaráttuna og sérlega gaman að flakka um og ræða við fólk víðs vegar um landið á vinnustöðum sem ég hefði annars aldrei komið inn í, svo sem í sláturhúsum og skinnaiðnaði.

„Bókmenntaverkfræði“ er hugtak sem ekki allir vita hvað þýðir. Gætirðu sagt lesendum eitthvað frá því? Og kannski „lestrarhestamennsku“ líka?
Íslenskan er svo skemmtilegt leikfang, ef mann vantar hugtak þá er auðvelt að búa það til. Þessi hugtök nota ég til að lýsa því sem ég fæst við á léttan hátt. Byrjum á bókmenntaverkfræðinni. Fyrir krakka í dag eru íslenskar miðaldir jafn framandi og fjarlæg heimsálfa. Milli 21. aldar og sögualdar er gjá sem þarf að brúa til að börnin skilji Teikning af Brynhildi Þórarinsdóttur í upplestrarham eftir Rán Flygenringsögurnar. Ég er í raun brúarsmiður þegar endursegi Íslendingasögur og miðla þeim til barna, brúin þarf að vera traust til að börnin komist klakklaust inn í þessa framandi veröld og ekki síður heilu og höldnu til baka frá svona róstursömum tímum. Svo er það lestrarhestamennskan. Ég geri talsvert af því að halda erindi um lestrarhvatningu og eflingu lestraráhuga fyrir foreldra og kennara. Þar nota ég þetta hugtak, mér finnst mikilvægt að lestur fái sama vægi og annað tómstundastarf og tala um lestrarhestamennsku sem fjölskyldusport. Foreldrar þurfa að sinna lestrinum á sama hátt og öðrum íþróttum sem börnin æfa, mæta á hliðarlínuna, hvetja og styðja og umfram allt vera góð fyrirmynd. Ástríða er smitandi, það væri óskandi að foreldrar fylgdust með barnabókaútgáfunni af sama áhuga og enska boltanum, veldu sér höfunda „að halda með“ og kyntu undir stemningu kringum lestur. Þessi félagslega nálgun er að mínu mati vænlegri leið til að efla lestraráhuga en heimalestrarkvöð og kvittanaskylda. Við viljum sjá fleiri lestrarhesta og lestrarfolöld og við þurfum því sem samfélag að hlúa að lestrarhestamennsku og styðja fjölskyldur til þátttöku. Eins og í öðrum íþróttum þarf reglubundnar fjölbreyttar æfingar, jafnt spretti sem teygjur, en lykilatriðið er þó að upplifa og njóta saman.

Hvað er framundan hjá þér, persónulega og atvinnulega?
Nú er ég í sumarfríi og á leið í ferðalög með fjölskyldunni. Tölvan verður skilin eftir heima. Svo ætla ég að setjast við skriftir í haust en ég fékk 6 mánaða listamannalaun. Þau gefa mér kost á að taka pásu frá kennslunni og einbeita mér að því að skrifa.

Það væri hægt að taka heila viðtalsbók við þig, því verk þín og störf eru svo heillandi, en við verðum að slá botninn í þetta samt. Er eitthvað að lokum sem þú myndir vilja segja?
Ætli ég minni ekki bara einu sinni enn á að lestur er bestur. Ekki láta börnin verða bókþrota á í sumar. Komið með þau á bókasafnið, farið í bókabúð, krækið í hljóðbók. Umfram allt skemmtið ykkur saman við lesturinn því lestrarhestamennska er fjölskyldusport.


- Við tökum svo sannarlega undir með Brynhildi um að lestur sé bestur og þökkum henni kærlega fyrir stórskemmtilegt og fróðlegt viðtal, og óskum henni auðvitað alls hins besta í framtíðinni.

(Myndirnar sem fylgja með eru allar fengnar með góðfúslegu leyfi Brynhildar)

Brynhildur Þórarinsdóttir með bækur í fanginu

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan