Hvað er að frétta af Amtsbókasafninu?

Hluti af starfsliði Amtsbókasafnsins á bleikum degi í október.
Hluti af starfsliði Amtsbókasafnsins á bleikum degi í október.

Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður segir frá starfseminni og daglegu lífi á Amtsbókasafninu.

Hvað er að frétta?

Amtsbókasafnið eins og aðrar stofnanir, fyrirtæki og almenningur hefur þurft að breyta venjum sínum vegna veirunnar skæðu. Í stað þess að um 400 gestir heimsæki okkur höfum við þurft að loka fyrir heimsóknir, nema hvað forstofan er opin og þangað geta gestir komið og skilað safngögnum og sótt pantanir milli klukkan 15:00 og 17:00. Við völdum að fara þessa leið frekar en að loka alveg og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við henni frá okkar gestum. Til að panta er hægt að gera það á vefnum leitir.is, hringja í safnið milli kl. 10:00 og 12:00 virka daga, eða senda tölvupóst á bokasafn@amtsbok.is. 

Mynd af Hólmkeli Hreinssyni amtsbókaverði

Þessari þjónustu hefur fylgt töluvert umstang og höfum við öll skipt með okkur verkum til að láta þetta ganga snurðulaust. Þessa dagana er líka jólabókaflóðið í algleymi og árleg vinna við að velja og kaupa bækur er töluverð og svo, í framhaldinu þarf að plasta bækurnar, merkja og annað það sem þarf til að gera þær tilbúnar til útláns. Sama á við um ný borðspil sem eru líka að koma út í stórum stíl. Við höfum líka verið að nýta tímann í kófinu til að fara yfir verkferla hjá okkur og undirbúa styttingu vinnuvikunnar sem tekur gildi um áramótin næstu og það hefur verið mjög jákvætt að geta hist og velt fyrir okkur hvernig við getum skipulagt okkur enn betur. Sum okkar hafa líka verið að vinna heima, en kannski minna en ella þar sem töluverður tími hefur farið í að taka til pantanir og afgreiða þær og þjónustan við viðskiptavinina okkar hefur alltaf forgang og útlán á bókum og öðru safnefni er alltaf grunnurinn í þjónustunni okkar.

Engu að síður höfum við verið að taka ýmis skref til að færa þjónustu okkar á stafrænt form. Vefurinn okkar veitir mikilvægar upplýsingar og viðskiptavinir okkar geta sinnt ýmsu á vefnum www.leitir.is eins og að athuga með skiladag, framlengja lánstíma, panta safngögn og leita að efni bæði á Amtsbókasafninu og öðrum bókasöfnum. Rafbókasafnið er samstarfsverkefni íslenskra almenningsbókasafna þar sem þeir sem eru með gilt bókasafnsskírteini geta fengið lánaðar rafbækur og hljóðbækur á sama hátt og venjulegar bækur. Enn sem komið er vantar tilfinnanlega íslenskar raf- og hljóðbækur til útláns en vonandi stendur það til bóta. Hinsvegar er ágætt úrval af ensku efni um allt milli himins og jarðar á rafbókasafninu og hægt að lesa eða hlusta í flestum snjalltækjum.

Við erum líka á Facebook og birtum þar ýmsar upplýsingar, s.s. um nýkomið safnefni og þó nokkrir nota Facebook messenger til að eiga netspjall við okkur. Einnig erum við með myndir af lífi okkar og starfi á Instagram og nýjasta viðbótin okkar á netinu eru svo myndbönd á TikTok sem eru fyrst og fremst hugsuð til að hafa gleði og gaman en vekja um leið athygli á safninu. Að lokum má líka geta þess að fyrir utan útlán á bókum er hægt að fá lánað ýmislegt skemmtilegt á safninu, s.s. borðspil, DVD myndir, hljóðbækur á diskum, plokktangir, kökuform, kindle lesbretti og lautarkörfur svo nokkuð sé nefnt.

Eins og öll heimsbyggðin bíðum við spennt eftir því að kófinu ljúki og við getum opnað dyrnar okkar fyrir gestum og gangandi, því ekkert finnst okkur betra en að fá fólk í heimsókn til að sinna þeim erindum sem hver og einn vill sinna á Amtsbókasafninu, segir Hólmkell Hreinsson Amtsbókavörður.

Verið að ganga frá pöntunumMynd af starfsmanni að undirbúa bók fyrir útlán

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan